Yfir 3,5 milljónir tilfella í heiminum

Kristsstyttan í Rio de Janeiro í Brasilíu skartar andlitsgrímu um …
Kristsstyttan í Rio de Janeiro í Brasilíu skartar andlitsgrímu um þessar mundir. Staðfest tilfelli kórónuveiru á heimsvísu eru komin yfir 3,5 milljónir og heldur tilfellum áfram að fjölga í Suður-Ameríku á meðan hann virðist vera í rénun í Evrópu og Bandaríkjunum. AFP

Fjöldi staðfesta smita af völdum kórónuveirunnar í heiminum öllum eru orðin fleiri en 3,5 milljónir. Þrjá fjórðu smitanna má rekja til Evrópu og Bandaríkjanna. Taka verður mið af því að talning ríkja er mismunandi og í sumum ríkjum eru aðeins tekin sýni ef alvarlegur grunur er um smit. 

Að minnsta kosti 3.500.517 smit hafa verið staðfest á heimsvísu og 246.893 dauðsföll. Flest tilfellin eru í Evrópu, yfir 1,5 milljónir talsins, og 143.000 dauðsföll. 

Bandaríkin tróna efst á lista yfir flest smit í einu ríki þar sem yfir 1,1 milljón hefur smitast og 67.000 látið lífið. 

Faraldurinn er í rénun í Evrópu og hafa dauðsföll af völdum veirunnar ekki verið færri á einum sólarhring á Ítalíu, Spáni og Frakklandi síðan í mars. 135 dauðsföll voru staðfest í Frakklandi, 164 á Spáni og 174 á Ítalíu, og hafa ekki verið færri þar í landi í tvo mánuði. 

Á sama tíma heldur tilfellum áfram að fjölga í Suður-Ameríku og Afríku þar sem óttast er að mun fleiri séu smitaðir en hafa verið greindir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert