Kínversk stjórnvöld fullyrða að Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hafi engar sannanir fyrir því að kórónuveiran hafi orðið til á kínverskri rannsóknarstofu líkt og Pompeo hefur ítrekað fullyrt í fjölmiðlum.
Hua Chunying, talskona kínverska utanríkisráðuneytis segir að það ætti eingöngu að vera í höndum vísindamanna og heilbrigðisstarfsfólks að tjá sig um uppruna veirunnar, í stað stjórnmálamanna sem „ljúga sér til hagsbóta“. „Herra Pompeo tjáir sig í hvívetna en getur ekki lagt fram neinar sannanir. Af hverju ekki? Af því að hann hefur engar sannanir,“ sagði Chunying á blaðamannafundi kínverskra stjórnvalda í dag.
Pompeo fullyrti á sunnudag að „mjög sterkar vísbendingar“ sýndu að veiran ætti uppruna sinn á rannsóknarstofu í Kína. Þessi kenning hefur ítrekað verið borin til baka bæði af Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) og ýmsum vísindamönnum. Fyrstu rannsóknir benda til þess að veiran eigi upptök sín á matarmarkaði í kínversku borginni Wuhan og hafi borist úr dýrum í menn.
Kínverjar saka Bandaríkin um að hafa dreift samsæriskenningum um uppruna veirunnar til að draga athyglina frá því hvernig bandarísk stjórnvöld hafa brugðist við útbreiðslu veirunnar. Yfir 70 þúsund hafa látist úr veirunni í Bandaríkjunum og hafa hvergi verið fleiri.
Chen Xu, sendiherra Kína hjá Sameinuðu þjóðunum, sagði á fundi í Genf í morgun að það væri ekki forgangsmál hjá þarlendum yfirvöldum að bjóða alþjóðlegum sérfræðingum að rannsaka uppruna kórónuveirufaraldursins á meðan hann er enn að ganga yfir.