Dauðsföll af völdum kórónuveirunnar í Asíu eru orðin yfir tíu þúsund talsins. Tæplega helming þeirra má rekja til Kína þar sem faraldurinn braust fyrst út í lok síðasta árs.
Faraldurinn hefur lagst mun þyngra á ríki Evrópu þar sem 151.576 hafa látið lífið og Bandaríkin og Kanada þar sem 79.328 hafa látið lífið.
Aðeins eitt dauðsfall hefur verið skráð í Kína af völdum kórónuveirunnar síðustu þrjár vikur og er heildarfjöldi dauðsfalla þar í landi 4.633.
Bandaríkin hafa farið einna verst út úr faraldrinum og segir Donald Trump forseti að bandaríska ríkisstjórnin sé að íhuga refsiaðgerðir gegn Kínverjum vegna þess hvernig þeir brugðust við kórónuveirunni er hún var að brjótast út.
Stjórnvöld í Peking segja að Bandaríkjamenn vilji afvegaleiða umræðuna frá eigin viðbrögðum við veirunni.