Ástralski kardínálinn George Pell vissi af barnaníði kaþólskra presta þegar á áttunda áratugnum en gerði ekkert til að þeir yrðu fjarlægðir úr embætti.
Þetta kemur fram í niðurstöðu skýrslu sem var birt í morgun.
Skýrsla rannsóknarnefndar kom út árið 2017 en þessar upplýsingar voru ekki birtar þegar réttað var yfir honum vegna barnaníðs, að sögn BBC.
Pell var sýknaður af barnaníði í hæstarétti fyrir páska og látinn laus úr fangelsi eftir að hafa dúsað þar í þrettán mánuði. Hann var sakfelldur í fyrra fyrir kynferðisbrot gegn tveimur kórdrengjum.
Kardínálinn var fjármálastjóri Páfagarðs og hæst setti embættismaður kaþólsku kirkjunnar sem hafði verið sakfelldur fyrir barnaníð.
Í skýrslunni kemur fram að Pell hafi vitað af barnaníði presta innan kaþólsku kirkjunnar bæði snemma á ferli sínum og síðar meir.
Sérstaklega er í skýrslunni vísað á bug því sem Pell hefur haldið fram um að hann hafi ekki vitað af brotum fyrrverandi samstarfsmanns síns Gerard Ridsdale, sem var dæmdur í fangelsi fyrir hundruð brota tengdum barnaníð.
Cardinal Pell 'knew of' clergy abuse, says Australian royal commission https://t.co/PzRmZnnfdL
— BBC News (World) (@BBCWorld) May 7, 2020