Feðgar hafa verið handteknir og ákærðir fyrir að hafa skotið óvopnaðan svartan mann, Ahmaud Arbery, til bana í bandaríska ríkinu Georgíu.
Gregory McMichael, 64 ára, og sonur hans Travis McMichael, 34 ára, voru handteknir í gær. Báðir voru þeir ákærðir fyrir morð og líkamsárás.
Mikil reiði greip um sig vikurnar eftir skotárásina vegna þess að lögreglunni tókst ekki að sanna að feðgarnir, sem eru hvítir, hefðu verið að verki, að sögn BBC.
Að sögn saksóknaraembættisins í Georgíu voru feðgarnir báðir vopnaðir og var það sonurinn sem skaut Arbery til bana.
Two men involved in the fatal shooting of Ahmaud Arbery near Brunswick, Georgia, have been arrested and face murder and aggravated assault charges, according to the Georgia Bureau of Investigation https://t.co/UIVg0L4XaS pic.twitter.com/zWRkeqtVsU
— CNN (@CNN) May 8, 2020
Arbery, 25 ára, var úti að skokka í strandborginni Brunswick í febrúar þegar atvikið átti sér stað. Í skýrslu lögreglunnar kemur fram að Gregory McMichael sagðist hafa komið auga á Arbery og talið að hann líktist grunuðum manni sem tengdist röð innbrota.
Feðgarnir sóttu vopnin sín og eltu Arbery á pallbíl. Í skýrslunni segir Gregory að hann og sonur hans hefðu sagt „stoppaðu, stoppaðu, við viljum tala við þig“ og að Arbery hefði þá ráðist á son hans. Skotum var hleypt af og féll Arbery til jarðar.
Móðir Arbery sagði að lögreglan hefði greint henni frá að sonur hennar hefði tengst innbrotum áður en skotárásin átti sér stað en að fjölskyldan trúi ekki að hann hefði framið glæp. Hann hafi verið mikill skokkari og að hann hafi verið óvopnaður.