Norska lögreglan hefur handtekið mann á fertugsaldri í tengslum við hvarf Anne-Elisabeth Hagen.
Maðurinn býr í Romerike, að því er kemur fram í yfirlýsingu lögreglunnar.
Þar kemur fram að maðurinn tengist Tom Hagen, eiginmanni Anne-Elisabeth og að hann búi yfir sérfræðiþekkingu í rafmynt og upplýsingatækni, að sögn NRK.
Maðurinn var handtekinn í Ósló.
Í bréfi meintra mannræningja sem var skilið eftir á heimili fjölskyldu Anne-Elisabeth Hagen hótuðu þeir að birta myndskeið af aftöku hennar á netinu ef þeim bærist ekki milljarður í lausnargjald í órekjanlegri rafmynt.
Tom Hagen hefur haldið því fram að hann búi ekki yfir nægri þekkingu á rafmynt til að hafa getað sett fram slíka kröfu.
Lögmannsréttur Eiðsifjaþings í Noregi úrskurðaði í gær að Hagen skyldi sleppt úr gæsluvarðhaldinu sem Héraðsdómur Nedre-Romerike úrskurðaði hann í til fjögurra vikna 29. apríl. Hann situr þó áfram þar sem lögreglan áfrýjaði úrskurðinum strax til Hæstaréttar.