Tara Reade, fyrrverandi samstarfskona Joe Biden, segir að hann ætti ekki að sækjast eftir útnefningu Demókrataflokksins fyrir komandi forsetakosningar. Reade sakar Biden um að hafa beitt hana kynferðisofbeldi fyrir 27 árum en Biden hefur hafnað því. Reade sagði í viðtali í kvöld að hún sé tilbúin að gangast undir lygapróf til að sanna mál sitt.
Reade, sem er 56 ára, sagði í hlaðvarpi í mars að öldunadeildarþingmaðurinn fyrrverandi hafi sett hendurnar inn undir pils hennar og brotið gegn henni. Hún hefur síðan ítrekað þetta í viðtölum og tilkynnt um þetta til lögreglu í Washington í byrjun apríl.
„Joe Biden, vinsamlegast stígðu fram og taktu ábyrgð á gjörðum þínum. Þú ættir ekki að bjóða þig fram til forseta Bandaríkjanna,“ sagði Reade í viðtali við fjölmiðlakonuna Megyn Kelly í kvöld.
Aðspurð hvort hún vilji að hann hætti við áætlað framboð svaraði Reade: „Ég óska að svo yrði, en hann mun ekki gera það.“ Reade segir að það sé um seinan fyrir Biden að biðja hana afsökunar.
Þetta er í fyrsta sinn sem Reade kemur fram í fjölmiðlum eftir að Biden kom fram í morgunsjónvarpi í síðustu viku þar sem hann hafnaði ásökunum Reade „Ég veit ekki hvers vegna eftir 27 ár er þetta allt í einu nefnt. En ég ætla ekki að velta upp spurningunni um hver tilgangur hennar er. Ég ætla ekki að ráðast á hana,“ sagði Biden meðal annars.
Reade segist vera tilbúin að taka lygapróf með því skilyrði að Biden geri slíkt hið sama. „En hvers konar fordæmi setur það fyrir þolendur ofbeldis? Þýðir það að við erum talin sek og þurfum öll að gangast undir lygapróf?“