40-45% smit nægi fyrir hjarðónæmi

Hjarðónæmi gæti náðst í Stokkhólmi í næsta mánuði.
Hjarðónæmi gæti náðst í Stokkhólmi í næsta mánuði. AFP

Nýjar rannsóknir vísindamanna við Stokkhólmsháskóla sýna að það gæti dugað að 40-45 prósent íbúa smitist af kórónuveirunni og myndi með sér mótefni til að hjarðónæmi náist. Það gæti gerst í Stokkhólmi þegar í næsta mánuði.

„Jafnvel þótt Stokkhólmur nái hjarðónæmi í júní þýðir það ekki að hættan sé liðin hjá,“ segir Anders Tegnell sóttvarnalæknir Svíþjóðar.

Hingað til hefur verið miðað við að um 60 prósent íbúa þurfi að vera ónæm fyrir veirunni til að smit hætti að dreifast, en nýja rannsóknin, sem vísindamenn við stærðfræðideild Stokkhólmsháskóla og Háskólans í Nottingham framkvæmdu, sýnir að færri smit þarf til. 

Tom Britton, prófessor við Stokkhólmsháskóla, er einn þeirra sem kom að rannsókninni. „Þegar smit dreifist meðal fólks þá dreifist það ekki tilviljanakennt heldur eru þeir sem hitta margt fólk í meiri hættu en þeir sem eru síður félagslyndir,“ segir Britton. „Þegar 40 prósent íbúa hafa smitast gæti hlutfall þeirra meðal félagslyndra verið um 60 prósent og eru þeir þá líklegri til að vera ónæmir en þeir ófélagslyndu.“

Módelið sem unnið var með gerir ráð fyrir smitstuðlinum 2,5, þ.e. að að hver smitaður einstaklingur smiti að meðaltali 2,5 aðra. Rannsóknin hefur ekki verið yfirfarin, en að sögn Britton eru tvö atriði sem gera niðurstöðurnar trúlegar. Þannig hefur hópur rannsakenda frá Liverpool komist að áþekkum niðurstöðum auk þess sem Marc Lipsitch, sóttvarnasérfræðingur við Harvard-háskóla, hefur farið jákvæðum orðum um niðurstöðuna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert