Saksóknari setti lögreglu stólinn fyrir dyrnar

Lögregluaðgerð á vinnustað Tom Hagen, Futurum-byggingunni á Rasta, skömmu eftir …
Lögregluaðgerð á vinnustað Tom Hagen, Futurum-byggingunni á Rasta, skömmu eftir að hann var handtekinn í lok apríl. Hagen er nú laus úr haldi í kjölfar úrskurða tveggja dómstiga auk þess sem héraðssaksóknari hefur bannað lögreglu að handtaka hann aftur, en það stóð til í gær. Öðrum manni, sem handtekinn var á fimmtudagskvöld, var sleppt úr haldi í dag. AFP

Lögreglan í Nedre-Romerike í Noregi hugðist handtaka fjárfestinn og auðmanninn Tom Hagen á ný um leið honum var sleppt úr gæsluvarðhaldi í gær. Héraðssaksóknari í Ósló greip þá inn í og bannaði aðra handtöku nema ný gögn kæmu fram sem teldust hafa verulega þýðingu varðandi meintan þátt Hagen í hvarfi eiginkonu sinnar, Anne-Elisabeth Hagen.

Norska ríkisútvarpið NRK greindi frá þessu í dag og ræddi við Kirsti Guttormsen, saksóknara við héraðssaksóknaraembætti Óslóar. „Það er mikilvæg meginregla að ákæruvaldið [lögreglan í þessu tilfelli] hlíti úrskurðum dómstóla. Í þessu tilfelli, miðað við kringumstæður, taldi ég engar forsendur fyrir að handtaka hann aftur um leið og hann var látinn laus,“ segir Guttormsen og kýs að tjá sig ekki frekar um málið þar sem rannsókn þess stendur yfir.

Á þunnum ís

NRK ræddi einnig við John Christian Elden lögmann sem kvað það engum vafa undirorpið að lögreglan stæði á næfurþunnum ís í málatilbúnaði sínum sem hvort tveggja lögmannsréttur og Hæstiréttur hafa nú léttvægan fundið með örskömmu millibili.

NRK segist hafa heimildir fyrir því að stjórnendur rannsóknarinnar hafi fundað nánast allan gærdaginn um hvað taka skyldi til bragðs úrskurðaði Hæstiréttur Hagen í vil, sem hann svo gerði. Úr varð að lögreglan færi að fangelsinu í Nedre-Romerike og handtæki Hagen á ný þegar hann gengi út. Sú áætlun féll í grýttan jarðveg hjá saksóknaraembættinu sem fyrr segir.

„Tvennt er mér efst í huga í þessu máli,“ segir Svein Holden, lögmaður Hagen, við NRK, „í fyrsta lagi veldur það mér áhyggjum að stjórnendur rannsóknarinnar hafi metið stöðuna eins og þeir gerðu, í öðru lagi gleður það mig að við búum við virkt saksóknaraembætti sem sér til þess að lögreglan haldi sig við það sem hvort tveggja héraðssaksóknari og ég teljum að sé rétt lögfræði.“

Fær ekki að sofa heima hjá sér

Hann segir Hagen nú einskis annars óska en að fá að sofa heima hjá sér eða í sumarbústað sínum á Kvitfjell. Þetta er hins vegar ekki hægt þar sem lögregla hefur nú hafið svokallaða þriðjamannsrannsókn (n. tredjemannsransaking) á báðum stöðum og er einbýlishúsið við Sloraveien í Lørenskog innsiglað vegna þessa og sumarbústaðurinn einnig. Rannsóknarúrræðinu er beitt til að rannsaka vettvang sem ekki tilheyrir grunuðum í sakamáli.

Lögmannsrétturinn sagði í úrskurði sínum í fyrradag að ekki væri grundvöllur til að gruna Tom Hagen í málinu. Að sögn Svein Holden lítur þó lögregla enn á Hagen sem grunaðan mann og því sé vafamál hvort lögreglu sé stætt á að beita rannsóknarúrræðinu.

Hinum manninum sleppt í dag

„Ég efast um að lögregla hafi heimild til að fara þessa leið á meðan Hagen liggur að hennar mati undir grun. Þetta er spurning sem við þurfum að kafa ofan í núna, þetta er lögfræðilegt vafamál,“ segir Holden við dagblaðið VG.

Ofan á þetta sleppti lögregla manninum, sem handtekinn var á fimmtudagskvöldið, úr haldi síðdegis í dag eftir langar yfirheyrslur og virðist nú hreinlega standa á byrjunarreit eftir að hafa hvorki komist lönd né strönd með málatilbúnað sinn fyrir tveimur dómstigum og að auki fengið snuprur frá héraðssaksóknara.

NRK

NRKII

VG

VGII

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert