Dr. Anthony Fauci, forstöðumaður Ofnæmis- og smitsjúkdómastofnunar Bandaríkjanna, auk tveggja annarra liðsmanna smitvarnateymis Hvíta hússins þurfa að sæta sóttkví eftir að hafa umgengist einstaklings sem reyndist smitaður af kórónuveirunni.
Fauci hefur vakið athygli fyrir vasklega framgöngu í baráttunni gegn kórónuveirunni í Bandaríkjunum og hefur hann ekki hikað við að gagnrýna Donald Trump Bandaríkjaforseta og stjórn hans. Um miðjan apríl fullyrti hann til dæmis að stjórnvöld hefðu getað bjargað mannslífum með því að bregðast fyrr við útbreiðslu kórónuveirunnar í landinu.
Auk hans verða Dr. Robert Redfield, forstöðumaður sóttvarnamiðstöðvar Bandaríkjanna, og Stephen Hahn, yfirmaður Matvælaeftirlits Bandaríkjanna, í sóttkví næstu tvær vikurnar.
Sýni hefur þegar verið tekið hjá Fauci, sem er 79 ára, og reyndist það neikvætt. Sýni verður tekið hjá honum daglega á meðan sóttkvínni stendur. Þremenningarnir munu áfram sinna störfum sínum en í fjarvinnu. Þeir tilheyra allir neyðarstarfshópi sem stjórnvöld skipuðu þegar veiran hóf að breiðast út en Mike Pence varaforseti sagði í vikunni að hópsins, sem hann fer fyrir, verði ekki þörf mikið lengur en út þennan mánuð.