Fjöldi nýrra kórónuveirusmita í Suður-Kóreu hefur neytt stjórnvöld til að loka börum og skemmtistöðum í höfuðborginni Seoul á nýjan leik. Óttast er að önnur bylgja faraldursins sé yfirvofandi.
34 nýsmit voru greind í dag og hafa ekki verið fleiri í heilan mánuð. Fjöldi staðfestra tilfella er 10.874 og 256 hafa látið lífið af völdum veirunnar í landinu. Stjórnvöld brugðust hratt við þegar faraldurinn braust út í byrjun árs og hafa mörg ríki litið til aðgerða í Suður-Kóreu sem þóttu takast afar vel.
Moon Jae-in, forseti Suður-Kóreu, segir að nýju smitin sýni það svart á hvítu að jafnvel þegar hlutir eru að færast í samt horf eru líkur á að veiran geti tekið sig upp að nýju. „Þessu er ekki lokið,“ sagði Moon í ræðu sem hann flutti í dag.
Aðeins nokkrir dagar eru síðan slakað var á takmörkunum vegna útbreiðslu veirunnar í landinu en nú hafa þeir verið innleiddar á ný. Meirihluti nýrra tilfella eru rakin til 29 ára karlmanns sem fór út að skemmta sér í Itaewon-hverfi borgarinnar, sem er þekkt fyrir öflugt næturlíf. 1.510 manns voru á sömu stöðum og maðurinn og heilbrigðisyfirvöld vinna nú að því að hafa samband við fólkið.