Útgöngubann framlengt til 1. júní

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Útgöngubann mun áfram gilda í Bretlandi til að minnsta kosti 1. júní, að því er fram kom í ávarpi Bor­is John­son, for­sæt­is­ráðherra Bret­lands, undir kvöld. Það hefur verið í gildi frá 23. mars.

Johnson greindi frá áætlunum um hvernig tilslökunum verður háttað.

„Nú er ekki rétti tíminn til að afnema útgöngubannið,“ sagði Johnson í sjónvarpsávarpi. Hann bætti því við að krakkar gætu snúið aftur í skóla og búðir opnað aftur 1. júní.

Tæplega 32 þúsund hafa látið lífið í Bretlandi frá því veir­an hóf að breiðast út þar í landi og hafa hvergi fleiri látið lífið af völd­um veirunn­ar í Evr­ópu.

Talið er að toppi faraldursins sé náð í Bretlandi en þrátt fyrir það sagði Johnson að það væri „algjört brjálæði“ að fórna því sem almenningur hefði lagt á sig síðan útgöngubannið var sett á.

Nánari útskýringar á tilslökunum eftir 1. júní verða kynntar nánar í breska þinginu á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert