Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hyggst kynna tilslakanir á útgöngubanni í Bretlandi vegna útbreiðslu kórónuveirunnar síðar í dag. Útgöngubann hefur verið í gildi í 48 daga eða frá 23. mars.
Á sama tíma hefur slagorði stjórnvalda í baráttunni gegn veirunni verið breytt úr „Verið heima, bjargið mannslífum“ í „Verið á varðbergi“ (e. Stay alert). Nýja slagorðið á að hvetja fólk til að vera heima eftir bestu getu og takmarka náin samskipti við aðra, en áður var fólk beðið að halda sig nær alfarið heima og ekki hitta aðra en sem búa á sama heimili.
Nicola Sturgeon, forsætisráðherra Skotlands, furðar sig á því að hafa fengið fregnir af þessari breytingu í fjölmiðlum en ekki frá sjálfum forsætisráðherranum. „Það er að sjálfsögðu hans að ákveða hvað er mikilvægast fyrir England,“ segir Sturgeon á Twitter. Hennar skilaboð til Skota eru samt sem áður áfram að vera heima og bjarga mannslífum.
The Sunday papers is the first I’ve seen of the PM’s new slogan. It is of course for him to decide what’s most appropriate for England, but given the critical point we are at in tackling the virus, #StayHomeSaveLives remains my clear message to Scotland at this stage. https://t.co/zrnEgTC15H
— Nicola Sturgeon (@NicolaSturgeon) May 10, 2020
Johnson mun ávarpa þjóðina í kvöld og búist er við að tilslakanirnar muni nær eingöngu ná til almenningsgarða en að fólk verði að öðru leyti hvatt til að halda sig áfram heima eftir fremsta megni.
Ráðherrann, sem sjálfur greindist með kórónuveiruna og lá á spítala í viku, hefur gert öllum ljóst að hann ætli að fara varlega í sakirnar hvað varðar tilslakanir á aðgerðum.
Yfir 31.500 hafa látið lífið í Bretlandi frá því að veiran hóf að breiðast út þar í landi og hafa hvergi fleiri látið lífið af völdum veirunnar í Evrópu. Rúmlega 216 þúsund smit hafa verið staðfest.