Alþjóðleg handtökuskipun gefin út á hendur Anne Sacoolas

Timm Dunn og Charlotte Charles, foreldrar Harry Dunn, krefjast réttlætis …
Timm Dunn og Charlotte Charles, foreldrar Harry Dunn, krefjast réttlætis í málinu. AFP

Interpol hefur gefið út alþjóðlega handtökuskipun á hendur Anne Sacoolas sem hefur verið ákærð fyrir manndráp af gáleysi í Bretlandi.

Sacoolas, sem er eig­in­kona banda­rísks diplómats, á yfir höfði sér handtöku yfirgefi hún heimalandið, Bandaríkin. 

Harry Dunn var nítj­án ára er hann lést eft­ir árekst­ur fyr­ir utan banda­ríska her­stöð 27. ág­úst. Anne Sacoolas, sem játaði að hafa ekið á röng­um veg­ar­helm­ingi, var ákærð í des­em­ber fyr­ir að hafa valdið dauða drengs­ins með glæfra­akstri. 

Bor­is John­son, for­sæt­is­ráðherra Bret­lands, seg­ir að banda­rísk yf­ir­völd af­neiti rétt­vís­inni með því að hafna framsals­kröfu breskra yf­ir­valda á hend­ur Sacoolas og segja að hún njóti friðhelgi stjórnarerindreka. Eiginmaður hennar starfaði á vegum bandarísku leyniþjónustunnar í Bretlandi þegar slysið varð. 

Radd Seiger, lögmaður Dunn-fjölskyldunnar, segir að lögreglan í Northampton-skíri hafi staðfest að Interpol hafi gefið út alþjóðlega handtökuskipun. Seiger segir að það þýði að hún hafi ekki notið friðhelgi þegar hún var yfirheyrð. Því hefði átt að handtaka Sacoolas þegar hún yfirgaf Bretland. 

„Það er orðið tímabært fyrir hana að snúa aftur til Bretlands og fyrir hönd fjölskyldunnar hvet ég yfirvöld, bæði í London og Washington, til þess að láta það verða að veruleika. Það er kominn tími til að gera hið rétta,“ er haft eftir Seiger á vef Guardian. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert