Vopnaðir menn gerðu árás á fæðingardeild

Afgangskur sérsveitarmaður sést hér halda á ungbarni sem hann náði …
Afgangskur sérsveitarmaður sést hér halda á ungbarni sem hann náði að koma í skjól. Teppið sem barnið var vafið í er blóðugt en ekki fylgir sögunni hvort barnið hafi hlotið áverka í árásinni. AFP

Tvö börn og 11 mæður og hjúkrunarfræðingar létust þegar nokkrir vopnaðir menn gerðu árás á fæðingardeild sjúkrahúss í Kabúl, höfuðborg Afganistans, snemma í morgun. Fimmtán særðust í árásinni, þar á meðal börn. 

Samtökin Læknar án landamæra sjá um rekstur hluta sjúkrahússins og eru erlendir starfsmenn hluti af starfsliðinu, að því er segir í frétt á vef BBC.

Þar kemur fram að íbúar í nágrenni sjúkrahússins hafi heyrt tvær sprengingar og skothvelli í kjölfarið, en árásin átti sér stað um kl. 10 að staðartíma (kl. 05:30 að íslenskum tíma). Læknir, sem náði að komast undan, segir í samtali við BBC að um 180 manns hafi verið inni í byggingunni þegar árásarmennirnir létu til skarar skríða. 

Afganskir sérsveitarmenn voru sendir á vettvang og náðu þeir að koma um 100 konum og börnum til bjargar, að því er afganskur embættismaður segir í samtali við fréttastofuna.

Reuters-fréttastofan segir að árásarmennirnir hafi klæðst lögreglufatnaði og þannig komist inn í sjúkrahúsið. Öryggisverðir á staðnum náðu að fella mennina eftir skotbardaga sem stóð yfir í nokkrar klukkustundir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert