Ítalir flýta opnun veitingastaða

Öll ónauðsynleg starfsemi hefur verið stopp í á níundu viku …
Öll ónauðsynleg starfsemi hefur verið stopp í á níundu viku á Ítalíu. AFP

Stjórnvöld á Ítalíu hafa ákveðið að heimila opnun veitingastaða, hárgreiðslustofa og snyrtistofa frá 18. maí.

Upphaflega stóð til að þessa staði mætti opna 1. júní, en vegna þrýstings frá héraðsstjórnum um að fá að ráða því sjálfar hvenær og hvernig opnað yrði fyrir starfsemi að nýju var ákveðið að heimila opnanir frá 18. maí. Það eru svo yfirvöld í hverju héraði fyrri sig sem ákveða hvernig og hvenær aðgerðum verður aflétt, en kórónuveirufaraldurinn hefur verið misskæður í héruðunum.

Verslanir, söfn og bókasöfn má einnig opna frá 18. maí, en öll þessi starfsemi hefur verið lokuð á landsvísu í á níundu viku. 

Fyrsta kórónuveirutilfellið kom upp á Ítalíu í lok janúar, en faraldurinn versnaði hratt og var tollur veirunnar fljótlega orðinn hærri á Ítalíu en í Kína. Dauðsföll á Ítalíu telja nú 30.739 samkvæmt talningu Johns Hopkins-háskólans, en aðeins eitt Evrópuland hefur orðið verr úti enn sem komið er: Bretland.

Ný smit á Ítalíu voru 744 talsins í gær, mánudag, og er það minnsti fjöldi nýrra smita á einum degi síðan 4. mars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert