Morðinginn handtekinn 32 árum síðar

Morðið á Scott Johnson er loksins að leysast.
Morðið á Scott Johnson er loksins að leysast. AFP

Ástrali er í haldi lögreglunnar grunaður um að hafa myrt samkynhneigðan mann fyrir tæpum 32 árum. Sá sem er í haldi lögreglu er 49 ára gamall og var tilkynnt um handtökuna í morgun. Að sögn lögreglu verður hann leiddur fyrir dómara á morgun og væntanlega ákærður fyrir morðið. 

Bandaríski stærðfræðingurinn Scott Johnson fannst látinn í úthverfi Sydney í desember 1988. Á þeim tíma úrskurðaði lögreglan að um sjálfsvíg væri að ræða en lík Johnsons, sem var 27 ára gamall, fannst í flæðarmálinu fyrir neðan klettavegg. Eftir að mál Johnsons hafði farið í þrígang í dánarmeinarannsókn var niðurstaðan sú árið 2017 að um hatursglæp væri að ræða en á þeim tíma sem Johnson lést er vitað um hóp ofbeldismanna sem fór um Sydney í leit að samkynhneigðum mönnum sem þeir gætu níðst á og beitt ofbeldi. Talið var líklegt að Johnson hafi annað hvort verið ýtt fram af klettinum eða hann fallið á flótta undan árásarmönnum.

Scott Johnson.
Scott Johnson. AFP

Árið 2018 tilkynnti lögreglan að hún myndi greiða eina milljón Ástralíudala í verðlaun fyrir upplýsingar sem myndu leiða til handtöku í málinu. Bróðir Johnson, Steve, tvöfaldaði síðan fjárhæðina í mars á þessu ári en hann hefur lengi þrýst á lögreglu að rannsaka andlátið. Alls voru því 190 milljónir íslenskra króna í boði fyrir þann sem gæti upplýst hvað gerðist í desember 1988. 

Steve Johnson segir að það sé ótrúlegt að morðinginn hafi fengið að leika lausum hala í tæp 32 ár. Hann segist telja að það skipti samfélag samkynhneigðra miklu máli að loksins sé réttlætinu fullnægt þar sem Scott hafi orðið að táknmynd þeirra tuga annarra samkynhneigðra manna sem létust á níunda og tíunda áratug síðustu aldar í heimi sem var fullur af fordómum og hatri í garð samkynhneigðra. 

Árið 2018 endurskoðaði ástralska lögreglan 88 grunsamleg dauðsföll á tímabilinu 1976 til ársins 2000 og leiddi rannsóknin í ljós að 27 menn voru drepnir fyrir þá einu sök að vera samkynhneigðir. 

Guardian

Business Insider

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert