Ekkert kom fram um rannsókn breska fjármálaeftirlitsins á auglýsingaskrifstofunni M&C Saatchi, í þeim gögnum sem stofan skilaði vegna útboðs Ríkiskaupa vegna markaðsverkefnisins „Ísland — saman í sókn“. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslandsstofu.
Tillaga M&C Saatchi hlaut hæstu einkunn valnefndar fyrir verkefnið, en alls verður 1,5 milljörðum króna varið í það. Stofan viðurkenndi bókhaldsmisferli í lok síðasta árs og hefur breska fjármálaráðuneytið síðan þá hafið rannsókn á fyrirtækinu.
Í skriflegu svari Ríkiskaupa í dag kom fram að M&C Saatchi hafi staðist allar hæfniskröfur útboðsgagna Ríkiskaupa vegna verkefnisins. Ríkiskaupum ber skylda til að staðfesta að útilokunarástæður 68. greinar laga um opinber innkaup eigi ekki við um fyrirtæki áður en endanlegur samningur er gerður. „Á þessari stundu er ekkert sem bendir til þess að um slíkt sé að ræða. Fyrirtækið stóðst allar hæfiskröfur útboðsgagna. Þess vegna breytti þessi frétt ekki neinu um valið,“ segir í svari Ríkiskaupa.
Í tilkynningu frá Íslandsstofu, sem sér um framkvæmd verkefnisins, kemur fram að þeim aðilum sem bjóða í verkefnið hafi verið gert að skila greinargóðum upplýsingum um fjárhagsstöðu sína, en að ekkert hafi fram komið um rannsókn breska fjármálaeftirlitsins í þeim gögnum sem M&C Saatchi skilaði.
Innlendir aðilar hafa sagt það sárt að svo stórt verkefni sé flutt úr landi, en auglýsingastofan Pipar/TBWA hafnaði í öðru sæti.
Í tilkynningu Íslandsstofu segir að allar tillögurnar hafi átt það sameiginlegt að vera samstarf innlendra og erlendra aðila. Það hafi því verið ljóst að í öllum tilfellum væri stór hluti þeirrar þjónustu sem boðið var í veittur af erlendum aðilum.
„Valnefnd valdi þá tillögu sem þótti best og líklegust til að skila árangri, í samræmi við kröfur útboðsgagna. Það eru miklir hagsmunir í húfi fyrir bæði íslenska ferðaþjónustu, og þjóðina alla, að vel takist til við að örva áhuga á Íslandi sem áfangastað þegar ferðaáhugi tekur að glæðast á ný,“ segir í tilkynningu.