Evrópusambandið hefur lagt fram áætlun um að hömlum verði aflétt á landamærum til að efla ferðaþjónustu í sumar.
Með þessu vonast sambandið til að bjarga milljónum starfa í tengslum við ferðaþjónustu en mikil óvissa hefur verið uppi undanfarið vegna kórónuveirunnar.
„Áætlunin sem er lögð fram í dag getur hjálpað mörgum Evrópubúum sem eiga lifibrauð sitt undir ferðaþjónustu og auðvitað líka þeim sem hafa áhuga á að ferðast í sumar,“ sagði Margrethe Vestager, varaforseti framkvæmdastjórnar ESB.
„Okkar skilaboð eru þau að það verður ferðamennska í sumar,“ sagði Paolo Gentiloni, efnahagsstjóri í framkvæmdastjórn ESB, að sögn BBC. „Jafnvel þótt það verði öryggisráðstafanir og takmarkanir.“
Stjórnvöld í Austurríki og Þýskalandi hafa þegar ákveðið að landamæri ríkjanna verði opnuð 15. júní að nýju eftir að hafa verið lokuð í tvo mánuði. Byrjað verður að draga úr höftum á föstudag.
Ríkin 27 innan ESB ákveða sjálf hvenær þau vilja opna landamærin sín en ESB hvetur þau til samræmdra aðgerða til að aflétta hömlum.
ESB leggur til að framkvæmdin verði í þremur skrefum. Það fyrsta er núna við lýði þar sem öll óþarfa ferðalög yfir landmæri eru bönnuð. Í næsta skrefi vill ESB aflétta hömlum á milli ríkja og svæða þar sem kórónuveirufaraldurinn hefur haft samskonar áhrif og þar sem heilsufarið er að batna.
Í lokaskrefinu verður öllum hömlum aflétt á landamærum og ferðir á milli ríkja verða eins og þær voru áður en kórónuveiran kom til sögunnar.