Landamæri opnuð 15. júní

Landamæri Þýskalands og Austurríkis.
Landamæri Þýskalands og Austurríkis. AFP

Stjórnvöld í Austurríki og Þýskalandi hafa ákveðið að landamæri ríkjanna verði opnuð 15. júní að nýju eftir að hafa verið lokuð í tvo mánuði. Byrjað verður að draga úr höftum á föstudag.

Ferðamálaráðherra Austurríkis, Elisabeth Koestinger, greindi frá þessu í viðtali við austurríska ríkisútvarpið í morgun. Að hennar sögn verður byrjað að rýmka reglur um ferðalög milli ríkjanna tveggja 15. maí en þá má fara í viðskiptaferðir á milli landa og eins í fjölskylduheimsóknir.  

Kanslarar Þýskalands og Austurríkis, Angela Merkel og Sebastian Kurz, ræddu saman í gær og komust að samkomulagi um hvernig verði staðið að því hvernig landamærin verða opnuð. Báðar þjóðirnar telja sig hafa náð taumhaldi á kórónuveirunni og voru löndin með þeim fyrstu í Evrópu til að gera tilslakanir á aðgerðum til að hefta útbreiðslu veirunnar.

AFP

Í dag mun ríkisstjórn Austurríkis kanna það hjá öðrum nágrannaríkjum hvenær tímabært sé að heimila frjálst flæði fólks. Má þar nefna Sviss, Liechtenstein og ríki í austri. 

Í Þýskalandi er í gildi viðvörun um að fólk eigi að fresta ferðalögum til erlendra ríkja þangað til um miðjan júní.  

Von er á því að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins muni hvetja aðildarríki ESB til þess að landamæri þeirra verið opnuð að nýju. Það þýðir að ef landamæri Austurríkis við Þýskaland verði opnuð gildi það sama við Tékkland, það er ef ástand heilbrigðismála er sambærilegt og í Þýskalandi. 

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert