Manafort fær að afplána dóminn heima hjá sér

Paul Manafort.
Paul Manafort. AFP

Fyrr­ver­andi kosn­inga­stjóri Don­alds Trump, Paul Mana­fort, hefur verið látinn laus úr fangelsi og mun hann ljúka afplánun heima hjá sér vegna smithættu af kórónuveirunni innan fangelsisins. 

Manafort hefur nú setið inni í rúmt ár, en hann var dæmdur í sjö og hálfs árs fangelsi á síðasta ári. 

Manafort, 71 árs, var sakfelldur fyrir skatta- og efnahagsbrot, fyrir að hafa leynt milljóna Bandaríkjadala tekjum sem hann fékk fyrir pólitísk ráðgjafarstörf í úkraínu og fyrir ólöglegan áróður. 

Alls hafa rúmlega 2.800 tilfelli kórónuveirunnar og 50 dauðsföll vegna hennar verið staðfest innan alríkisfangelsa Bandaríkjanna. Samkvæmt BBC hefur ekkert tilfelli veirunnar verið staðfest innan FCI Loretto-fangelsisins í Pensylvaínu, en Manafort hefur afplánað dóm sinn þar. Í lok mars tilkynnti William Barr, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, að fangar í áhættuhópum fyrir kórónuveirunni gætu átt þess kost að ljúka afplánun í stofufangelsi.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert