Ófyrirgefanleg illska

Bandarísk stjórnvöld hafa fordæmt árás á sjúkrahús Lækna án landamæra í Kabúl í gær. Viðkvæmt friðarsamkomulag í landinu virðist hafa runnið sitt skeið á enda og hefur forseti landsins fyrirskipað hernað gegn talíbönum og öðrum vígasamtökum að nýju. 

Að minnsta kosti 14 létust, þar á meðal nýburar og hjúkrunarfólk, þegar vopnaðir menn réðust inn á fæðingardeild í höfuðborg Afganistan, Kabúl, snemma í gærmorgun. Stuttu síðar grandaði sjálfsvígssprengjuárás á þriðja tug syrgjenda í austurhluta landsins. 

Engin vígasamtök hafa lýst ábyrgð á blóðbaðinu á sjúkrahúsinu en Ríki íslams sendi frá sér yfirlýsingu í gær um að samtökin hafi staðið á bak við sjálfsvígsárásina í útför lögregluforingja í Nangarhar-héraði. Auk þeirra sem létust eru tugir sárir eftir tilræðið. 

Forseti Afganistan, Ashraf Ghani, sakar bæði talíbana og Ríki íslams um að bera ábyrgð á  árásunum. „Í dag urðum við vitni að hryðjuverkaárásum talíbana og Ríkis íslams á sjúkrahús í Kabúl og útför í Nangarhar, sem og árásir annars staðar í landinu,“ sagði Ghani í sjónvarpsávarpi í gær.

Ghani sagði að aftur þyrfti að grípa til vopna gegn óvininum, en herir landsins hafa undanfarna mánuði einungis verið í varnarstöðu. Átti sú ákvörðun að liðka fyrir friðarviðræðum milli afganskra stjórnvalda og talíbana, en þær hafa strandað á deilum um lausn á talíbönum sem afgönsk stjórnvöld hafa í haldi. 

Utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Mike Pompeo, segir að árásir á saklaust fólk séu alltaf ófyrirgefanlegar en árásir á nýbura og fæðandi konur séu eintóm illmennska. Auk tveggja nýbura létust 12 mæður og hjúkrunarfræðingar á sjúkrahúsinu og við útförina létust að minnsta kosti 26. 

Pompeo segir að hryðjuverkamenn sem ráðist á syrgjendur í útför vilji sundra þeim tengslum sem tengja fjölskyldur og samfélög saman. En ætlunarverk þeirra muni aldrei heppnast. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert