Gjáin á milli Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, og Anthony Fauci, sóttvarnalæknis Bandaríkjanna og eins helsta ráðgjafa forsetans vegna kórónuveirunnar, hefur dýpkað enn frekar en Trump segist algjörlega ósammála þeim tilmælum Fauci að hafa skóla áfram lokaða næsta haust. Þá gefur forsetinn lítið fyrir þau tilmæli læknisins að fara verði varlega í að opna landið of snemma. AFP-fréttastofan greinir frá.
Trump sagði á blaðamannafundi í Hvíta húsinu að síðasta viðvörun Fauci væri „algjörlega óásættanleg“. En í gær varaði hann heilbrigðisnefnd Bandaríkjaþings við því að ef landið yrði opnað of snemma gæti það valdið óþarfa þjáningum og dauðsföllum.
„Við ætlum að opna landið okkar, fólk vill að það verði opnað, og skólarnir verða opnaðir,“ sagði Trump. Fauci segir hins vegar raunverulega hættu á því að með því að opna landið of snemma verði komið af stað faraldri sem ekki verði hægt að ráða við. Það geti jafnvel haft þau áhrif á bakslag komi í endurreisn efnahagsins í landinu.
Þrátt fyrir að þeir Fauci og Trump virðist algjörlega ósammála um það hvernig létta skuli á aðgerðum og opna landið á ný virðist Trump ætla að halda honum sem ráðgjafa. „Anthony er góð manneskja, mjög góð manneskja. Ég hef þó verið ósammála honum,“ sagði Trump í viðtali við FOX-sjónvarpsstöðina.
„Ég held við verðum að opna skólana okkar. Við verðum að opna landið okkar. Við viljum gera það á öruggan hátt en líka eins fljótt og hægt er. Við getum ekki haldið svona áfram. Það eru óeirðir á götum úti nú þegar,“ sagði Trump jafnframt.