Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur varað við því að öndunarfærasjúkdómurinn COVID-19 geti hugsanlega aldrei horfið. Alþjóðasamfélagið þurfi að vera undir það búið að sjúkdómurinn sé kominn til að vera, líkt og raunin varð með HIV-veiruna.
Fram kemur í frétt BBC að mannkynið sé mögulega að horfa upp á nýjan veruleika. „Þessi vírus fer mögulega aldrei,“ segir Mike Ryan, sérfræðingur stofnunarinnar. Ryan segir alþjóðasamfélagið þurfa vera búið undir langtímabaráttu við veiruna.
„Það er mikilvægt að við séum raunsæ og ég held ekki að nokkur maður geti sagt til um það hvenær veiran hverfi,“ segir Ryan. „Í þessu eru engin loforð og engar dagsetningar. Þessi sjúkdómur gæti orðið vandamál til lengri tíma, eða mögulega ekki.“