Býst við bóluefni í fyrsta lagi eftir ár

Heimsbyggðin bíður með eftirvæntingu eftir bóluefni gegn kórónuveirunni.
Heimsbyggðin bíður með eftirvæntingu eftir bóluefni gegn kórónuveirunni. AFP

Bóluefni gegn kórónuveirunni gæti verið tilbúið eftir ár samkvæmt jákvæðustu framtíðarsýn, byggt á gögnum frá þeim tilraunum sem hafnar eru. Þetta segir Lyfjastofnun Evrópu.

„Við sjáum möguleikann á því ef allt gengur að óskum að sum þeirra [bóluefnanna] verði tilbúin til samþykktar eftir ár,“ sagði Marco Cavaleri, yfirmaður líffræðivár og bóluefna hjá stofnuninni, á fjarblaðamannafundi.

„Þessar spár eru aðeins byggðar á því sem við sjáum nú. Ég verð að ítreka að þær byggja á bestu mögulegu framtíðarsýn. Við vitum að ekki öll bóluefni sem koma til þróunar fara í framleiðslu,“ bætti hann við. Sagðist hann efins um fréttir þess efnis að bóluefni gæti verið tilbúið í september.

Sló Cavaleri jafnframt á áhyggjur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um að veiran gæti mögulega „aldrei horfið“. „Það kæmi mér á óvart ef við fengjum ekki á endanum bóluefni gegn COVID-19.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert