Næstflest tilfelli kórónuveiru hafa verið staðfest í Rússlandi en þrátt fyrir það eru dauðsföllin þar í landi mun færri en í Bretlandi, Frakklandi, á Ítalíu og Spáni. Yfirvöld segja að þetta sé vegna þess hve mörg sýni eru tekin en aðrir efast.
Gagnrýnendur segja rússnesk yfirvöld ekki telja alla sem látist hafa af völdum veirunnar og telja ólíklegt að heilbrigðiskerfi landsins ráði vel við faraldurinn. 2.305 dauðföll hafa verið staðfest í Rússlandi en tilfellin eru 252.245 á meðan dauðsföllin eru 33.614 í Bretlandi.
Yfirvöld neita því staðfastlega að átt hafi verið tölurnar. Þau segjast telja þá sem látast af völdum veirunnar og vegna þess að hún hafi komið síðar til Rússlands en vesturhluta Evrópu hafi Rússar lært af því sem miður fór þar.
Bent er á lýðfræðilega þætti en eldri borgarar, sem eru viðkvæmari fyrir veikinni, eru færri í Rússlandi en mörgum löndum í vesturhluta Evrópu.
Dánartölur frá síðasta mánuði sýna að 11.846 létust í Moskvu, höfuðborg Rússlands. Fullyrt er að einungis 639 dauðsföll hafi verið af völdum kórónuveirunnar en heilbrigðisyfirvöld í borginni segja tölurnar réttar.
Sum lönd telja öll dauðsföll þar sem fólk hefur fengið veiruna, önnur þar sem talið er að veiran hafi átt þátt í dauðsfallinu og önnur einungis þar sem hægt er að rekja dauðsfallið beint til veirunnar; líkt og þegar fólk fær lungnabólgu og deyr.
Rússar telja fórnarlömb kórónuveirunnar á síðastnefndan hátt.
„Ef einhver fær hjartaáfall en hefur verið greindur með kórónuveiruna er opinbera dánarorsökin hjartaáfall,“ sagði Sergei Timonin, lýðfræðingur í háskólanum í Moskvu.
Auk þess hefur verið bent á að mörg sýni hafi verið tekin í landinu; en alls hafa sex milljónir farið í kórónuveirupróf í Rússlandi.
Tæplega helmingur þeirra sem hefur greinst með veiruna var fólk sem sýndi engin einkenni veikinnar.
Fáir eldri borgarar og góður undirbúningur á sjúkrahúsum hefur, að sögn rússneskra embættismanna, einnig hjálpað til við það hversu fáir hafa látist af völdum veirunnar í landinu.