Gæti orðið „mykrasti veturinn“ í áratugi

Dr. Richard Bright á Bandaríkjaþingi.
Dr. Richard Bright á Bandaríkjaþingi. AFP

Rick Bright, sem var háttsettur embættismaður innan bandaríska heilbrigðiskerfisins áður en hann var rekinn, segir að ríkisstjórn Donalds Trump Bandaríkjaforseta sé stefnulaus í baráttu sinni við útbreiðslu kórónuveirunnar í landinu.

Hann segir stjórnina ekki hafa neina heildaráætlun til að takast á við veiruna og að hún sé óundirbúin varðandi dreifingu nægs bóluefnis til milljóna Bandaríkjamanna.

Bright sagði á Bandaríkjaþingi að án skýrrar áætlunar og bættra og samræmdra viðbragða „gæti 2020 orðið myrkasti veturinn í áratugi“ fyrir Bandaríkjamenn. Hann var rekinn sem yfirmaður deildar sem vinnur við þróun bóluefnis gegn kórónuveirunni.

„Það er engin leiðsögn sem stendur þegar kemur að viðbrögðum við veirunni og við höfum enga heildaráætlun,“ sagði hann og varaði við því að sá 12 til 18 mánaða tímarammi sem hefur verið nefndur varðandi þróun nýs bóluefnis gæti verið óraunhæfur. „Ég held að þetta muni taka lengri tíma.“

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Yfir 85 þúsund Bandaríkjamenn hafa látist af völdum veirunnar, sem er það mesta í einu landi í heiminum. Í síðustu viku sendi Bright frá sér formlega kvörtun yfir því sem hann sagði vanhæfni ríkisstjórnarinnar til að berjast við veiruna þegar hún var fyrst að koma fram.

Hann sagðist hafa verið rekinn vegna pólitísks þrýstings eftir að hann lýsti yfir andstöðu sinni gegn kynningu ríkisstjórnarinnar á lyfjum gegn COVID-19 sem ekki höfðu sannað gildi sitt. „Hann var rekinn fyrir að hafa rétt fyrir sér,“ sagði nefndarkonan Anna Eshoo á þinginu.

Bright talaði um að ríkisstjórninni hefði mistekist að útvega nógu mikinn hlífðarbúnað vegna veirunnar, þar á meðal N95-grímur fyrir heilbrigðisstarfsmenn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert