Bandarískir alríkislögreglumenn lögðu í gær hald á farsíma öldungardeildarþingmannsins Richard Burr og gerðu húsleit á heimili hans. Þingmaðurinn er til rannsóknar hjá dómsmálaráðuneytinu vegna hlutabréfasölu stuttu eftir að kórónuveiran barst til Bandaríkjanna. LA Times greinir frá.
Burr, sem er þingmaður repúblikana, er formaður leyniþjónustunefndar öldungadeildarinnar og sat daglega upplýsingafundi um faraldurinn auk þess að hafa sökum stöðu sinnar aðgang að ýmsum upplýsingum um faraldurinn sem ekki voru aðgengilegar almenningi.
Seldi Burr í kjölfarið stóran hluta hlutabréfa sinna í 33 ólíkum færslum en flestar voru framkvæmdar 13. febrúar, áður en hlutabréfamarkaðir vestanhafs urðu fyrir þungu höggi. Er andvirði þeirra metið á bilinu 628 þúsund til 1,7 milljóna dala.
Burr er ekki eini bandaríski þingmaðurinn sem hefur verið gagnrýndur fyrir hlutabréfasölu í aðdraganda faraldursins. Í febrúar og mars seldi samflokkssystir hans, Kelly Loeffler, hlutabréf sem verðmetin eru á bilinu 1,25 milljónir dala til 3,1 milljón dala í fyrirtækjum sem síðar féllu skarpt í verði, svo sem olíufyrirtækinu ExxonMobil.
Samkvæmt lögum frá árinu 2012 er þingmönnum óheimilt að nýta innherjaupplýsingar í verðbréfaviðskiptum. Lögin voru samþykkt með 96 atkvæðum í öldungadeildinni, en þrír þingmenn greiddu atkvæði gegn, og var fyrrnefndur Burr einn þeirra.