Pútín bindur vonir við rússneskt bóluefni

Vladimir Pútín Rússlandsforseti þarf að funda með fjarbúnaði eins og …
Vladimir Pútín Rússlandsforseti þarf að funda með fjarbúnaði eins og allir aðrir. AFP

Vladimir Pútín Rússlandsforseti segir að kórónuveirufaraldurinn í Rússlandi sé nú í rénun eftir að fjöldi nýrra smita mældist færri en 10 þúsund á sólarhring í fyrsta sinn í nærri tvær vikur. Samkvæmt gögnum frá heilbrigðisyfirvöldum greindust 9.974 ný smit þar síðasta sólarhringinn sem þýðir að heildarfjöldi smita er nú 252.245. Fjöldi dauðsfalla er sagður vera 2.305.

„Síðustu vikur höfum við eytt allri okkar orku í að berjast gegn faraldrinum en nú er staðan að breytast og það gefur okkur tækifæri til að hugsa til framtíðar,“ sagði Pútín á fjarfundi með embættismönnum og vísindamönnum sem streymt var frá.

Á dagskrá fundarins voru meðal annars erfðarannsóknir og áætlanir Rússlands um að opna þrjár nýjar rannsóknarmiðstöðvar. Rinat Maksyutov, forstjóri sýkla- og veirufræðistofnunarinnar Vektor, sagði Rússlandsforsetanum að verið væri að þróa bóluefni gegn kórónuveirunni sem veldur COVID-19-sjúkdómnum. Af sex frumgerðum bóluefnum væru þrjú sem „lofuðu góðu“ og þróun á þeim væri komið á næsta stig.

Pútín sagðist binda miklar vonir við að þróun bóluefnis og rannsóknum á því yrði lokið í september. Það þótti óljóst hvort hann ætti við að bóluefnið ætti að vera tilbúið til notkunar í september. Hann benti á að rannsóknarmiðstöðin þyrfti að tryggja að hún hefði einkaleyfi til framleiðslu þeirra bóluefna sem hún væri að þróa.

Til stendur að hefja mótefnamælingar í Moskvu á morgun til að kanna útbreiðslu faraldursins og markmiðið er að taka sýni úr allt að 70 þúsund íbúum á dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert