Veiran mögulega að valda kawasaki-sjúkdómi

Skóli í Frakklandi. Víða um heim greinast börn með einkenni …
Skóli í Frakklandi. Víða um heim greinast börn með einkenni þess sem virðist vera kawasaki-sjúkdómur. Kórónuveira er fær um að valda þeim sjúkdómi. AFP

Það hefur komið fram að börn koma oftast tiltölulega vel út úr kórónuveirusmiti en nú virðast fylgifiskar veirunnar vera farnir að valda heilsufarsvanda ýmsum hjá börnum.

Mögulega er tenging á milli aukinnar nýgengni alvarlegs bólgusjúkdóms í börnum og útbreiðslu kórónuveirufaraldursins í heiminum. Víða hafa læknar verið að greina börn með einkenni þess sem virðist vera svonefndur kawasaki-sjúkdómur.

Kawasaki-sjúkdómur er tiltölulega sjaldgæfur bólgusjúkdómur sem getur orðið hjá börnum. Til þess að hann komi fram þurfa að fara saman óvenjulegt ónæmiskerfi og sterk viðbrögð þess sama kerfis vegna utanaðkomandi sýkingar eða veiru. Kórónuveira getur valdið þess konar viðbrögðum í ónæmiskerfinu og hefur þegar gert það hjá fullorðnum.

Rannsókn sem birtist í Lancet á dögunum sýndi fram á 30-földun á tilfellum hjá börnum sem líktust kawasaki-sjúkdómstilfellum í kjölfar kórónuveirufaraldursins. Frá janúar 2015 og til miðs febrúar 2020 greindust 19 með sjúkdóminn en frá miðjum febrúar og fram í miðjan apríl greindust 10 með einkenni hans. Enn eru þau tilfelli þó óstaðfest sem endilega kawasaki-tilfelli.

Áhyggjur af þessari þróun hafa verið nokkrar í Bandaríkjunum, þar sem aðeins í New York-ríki hafa komið upp 102 tilfelli sem líkjast kawasaki-sjúkdómnum. Áþekk tíðindi berast frá fjórtán öðrum ríkjum og fimm Evrópulöndum, sbr. Forbes.

Greinist reglulega á Íslandi

Kawasaki-sjúkdómur veldur ekki öndunarerfiðleikum eins og kórónuveirusýking getur gert, heldur veldur sterkt viðbragð ónæmiskerfisins bólgu í slagæðum og þar með er vandinn fremur tengdur starfsemi hjartans. Ljóst er orðið að börn sleppa í meirihluta tilfella við verstu sjúkdómseinkenni kórónuveirusýkingarinnar, en í gegnum kawasaki-sjúkdóminn getur veiran þó engu síður náð að kalla fram þessi neikvæðu áhrif á heilsu þeirra.

Kawasaki sjúkdómur greinist reglulega á Íslandi. Nýgengi sjúkdómsins hér er um sex börn ár hvert en nokkrar sveiflur eru þó í nýgengi á milli ára. Árangur meðferðar hefur verið góður og börnunum reitt vel af, segir á Vísindavefnum í grein frá 2003.

Helstu einkenni sjúkdómsins eru hár hiti í nokkra daga ásamt sérkennilegum útbrotum, einkum á búk, en einnig á útlimum. Þá fylgja iðulega stækkaðir eitlar ásamt hvarmabólgu. Slímhúðir sjúklinganna eru oft rauðar, þrútnar og litlar sprungur myndast til dæmis í varir. Tunga er oft eldrauð, svo kölluð jarðarberjatunga. Hendur og fætur verða stundum bjúgkenndir og roði sést á iljum og í lófum. Þá gera húðflagnanir vart við sig í framgangi sjúkdómsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert