„Þetta var ekki gott og svona eiga hlutirnir ekki að vera, við höfum sett flugfélögunum mjög greinargóðar reglur sem við væntum að sé fylgt,“ segir norski heilbrigðisráðherrann Bent Høie ómyrkur í máli í samtali við ríkisútvarpið NRK í dag eftir að hafa í eigin persónu gripið flugfélagið Norwegian með allt niður um sig í veiruvörnum.
Ráðherrann var á leið frá Ósló til heimaslóða sinna á Stavanger-svæðinu með síðdegisflugi Norwegian, DY540, síðdegis í gær og varð þess fljótt áskynja að reglum norskra heilbrigðisyfirvalda um eitt tómt sæti milli allra farþega, utan þeirra sem deildu heimili, var ekki fylgt í fluginu.
Þvert á móti sátu þrír farþegar eins og sardínur í dós í mörgum sætaröðum vélarinnar í þessu flugi milli höfuðborgarinnar og Stavanger sem tekur að jafnaði 55 mínútur. Høie sjálfur hafði þó autt sæti sér við hlið.
„Ég upplifði mig ekki í háska, en ég átti tal við aðra farþega sem höfðu kosið að fljúga í trausti þess að það væri öruggt og hraus hugur þegar þeir sáu að ekki var farið að reglum,“ segir ráðherra.
„Okkur þykir miður að einstökum farþegum hafi verið úthlutað miðjusæti þrátt fyrir að vera ekki í fjölskyldubókun eða hafa sjálfir kosið að vera sessunautar,“ segir Andreas Hjørnholm, upplýsingafulltrúi Norwegian, við NRK. Hann segir flugfélagið nú standa frammi fyrir algjörlega nýjum vandamálum og nú verði farið yfir verkferla til að kanna hvernig þessi sætaskipan í gær gat komið til.
Hjørnholm segir marga farþeganna hafa keypt flugfarið áður en yfirvöld gáfu út veirureglur sínar. „Við verðum bara að gera okkar besta, við getum ekki hent fólki, sem þegar hefur fengið flugsæti, úr vélinni,“ segir Hjørnholm og krítar þar býsna liðugt, að minnsta kosti ef marka má viðtal mbl.is við Gaute Næss, öskureiðan fjölskylduföður á leið til Las Palmas í fyrrasumar, sem sagði frá því þegar 50 ferðatöskur voru teknar úr vélinni og tveimur farþegum gert að taka annað flug svo koma mætti stórum laxafarmi um borð í vélina á síðustu stundu.
Høie heilbrigðisráðherra segir atvikið í gær til þess fallið að skapa neikvæða upplifun meðal farþega. „Nú mun ég biðja samgönguráðherra [Knut Arild Hareide] að boða fulltrúa flugfélaganna á fund og gera þeim þar dagljóst að verði þessum reglum ekki fylgt verði þær lögfestar og flugfélögum þar með bannað að fljúga við brot á þeim.“
Norwegian var skorið úr gjaldþrotssnörunni á elleftu stundu 4. maí þegar samþykkt var 2,7 milljarða (39 milljarða ISK) ríkisábyrgð á lánveitingu til félagsins, ríkuleg viðbót við skuldir þess sem námu 11 milljörðum (158 milljörðum ISK) fyrir.
NRK
NRKII (nýju flugreglurnar kynntar)
E24