Ekkert lát á blóðtöku Svía

Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, og Ann Linde utanríkisráðherra greina frá …
Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, og Ann Linde utanríkisráðherra greina frá gangi mála í kórónufaraldrinum á blaðamannafundi á miðvikudaginn. AFP

Sænskir fjölmiðlar greina í dag frá 28 nýjum dauðsföllum af völdum kórónuveirunnar og nemur blóðtaka þjóðarinnar í veirufaraldrinum nú 3.674 mannslífum, en 29.677 eru smitaðir af veirunni svo vitað sé. Dauðsföllum í landinu hefur þó fækkað verulega eins og annars staðar síðustu vikur.

Dauðsföllin í Svíþjóð eru algjörlega úr samræmi við nágrannalöndin í Skandinavíu þar sem flestir, utan Svíþjóðar, hafa látist í Danmörku, 543, í Noregi 232 og 297 í Finnlandi. Sænsk yfirvöld ákváðu að bíða að mestu leyti fram í apríl með að grípa til ráðstafana gegn útbreiðslu veirunnar og svaraði sóttvarnalæknir landsins, Anders Tegnell, harðri gagnrýni 22 sænskra vísindamanna, sem rituðu grein um málið í Dagens Nyheter í apríl, fullum hálsi og rökstuddi mál sitt meðal annars með því að mun fleiri væru látnir í New York en Svíþjóð.

Johan Giesecke, fyrrverandi sóttvarnalæknir Svíþjóðar, sem á sínum tíma réð Tegnell til starfa við embætti sitt, hélt því blákalt fram í viðtali við norska Dagbladet 26. mars að Svíar væru að gera það eina rétta, önnur lönd væru á hreinum villigötum í ráðstöfunum sínum gegn veirunni og er líklega óhætt að segja það nú, að orð sóttvarnalæknisins fyrrverandi hafi orðið fleyg fyrir þá kaldhæðni sem örlögin skópu þeim.

Sumarbústaðabann Norðmanna „heimska“

Meðal þeirra sem fengu ausuna yfir sig frá Giesecke var norski heilbrigðisráðherrann Bent Høie sem skömmu áður hafði bannað Norðmönnum að fara í sumarbústaði í önnur sveitarfélög. „Sumarbústaðabannið er algjört rugl. Þetta býður bara hættunni heim. Grípi ráðamenn til ráðstafana sem almenningur telur óviðeigandi fer fólk bara að hafa efasemdir um þá sem valdið hafa. Þetta er bara heimska,“ sagði Giesecke við Dagbladet án þess að blikna.

Sjúkraliði hreinsar útbúnað sjúkrabifreiðar eftir að sjúklingur var fluttur með …
Sjúkraliði hreinsar útbúnað sjúkrabifreiðar eftir að sjúklingur var fluttur með honum á gjörgæsludeild Danderyd-sjúkrahússins skammt frá Stokkhólmi í vikunni. Hátt í 4.000 manns eru látnir af völdum kórónuveirunnar í Svíþjóð. AFP

„Enn þá er gríðarlegt álag á heilbrigðiskerfinu vegna faraldursins,“ sagði Johanna Sandwall, deildarstjóri almannavarnadeildar Velferðarráðs Svíþjóðar (Socialstyrelsen), í samtali við sænsku sjónvarpsstöðina TV4 í gær.

Hún sagði 398 sjúklinga nú liggja á gjörgæsludeildum vegna kórónuveirusmits og væru þeir, sem hefðu heilsu til, fluttir svo fljótt sem verða mætti yfir á aðrar deildir til að draga eftir föngum úr álaginu á gjörgæslu.

Fullyrðingar Giesecke hæpnar

Frode Forland, deildarstjóri sóttvarnadeildar norsku lýðheilsustofnunarinnar, gagnrýnir hvorn tveggja, Anders Tegnell og forvera hans Johan Giesecke, í samtali við sænska dagblaðið Expressen í dag. Segir Forland þá fullyrðingu Tegnell og stofnunar hans alranga að ekki sé hægt að stöðva veiruna, aðeins lækka smitkúrfuna, það er útbreiðsluhraða veirunnar.

Dr. Lars Falk, læknir á EKMO-deild (Extrakorporeal membranoxidering) Karolinska-sjúkrahússins í …
Dr. Lars Falk, læknir á EKMO-deild (Extrakorporeal membranoxidering) Karolinska-sjúkrahússins í Stokkhólmi, fylgist með kórónuveirusjúklingi í öndunarvél. AFP

Eins segir hann Giesecke kasta fram mjög hæpnum fullyrðingum um þær ráðstafanir sem Svíar hafi gripið til og ekki síður um ráðstafanir annarra landa. „Hann ætti að sýna meiri auðmýkt. Það er mjög margt sem við ekki vitum um þessa veiru,“ segir deildarstjórinn.

Sænska Dagbladet náði tali af Giesecke sem játaði þá að hann kynni að hafa stigið fram með hroka og baðst velvirðingar á því, en kvaðst engu að síður sitja fast við sinn keip varðandi þá skoðun sína að Svíar hefðu gripið til öflugustu ráðstafananna gegn kórónuveirunni.

TV4

Expressen

Aftonbladet (22 vísindamenn gagnrýna viðbrögð við veirunni)

Dagbladet (rætt við Johan Giesecke 26. mars)

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka