Heilbrigðiskerfi São Paulo að lamast

AFP

Borgarstjórinn í stærstu borg Brasilíu, São Paulo, segir hættu á að heilbrigðiskerfið leggist á hliðina á næstunni en mikil aukning hefur orðið í innlögnum á gjörgæsludeildir sjúkrahúsa vegna kórónuveirunnar.

Á vef BBC kemur fram að Bruno Covas, borgarstjóri í São Paulo, segi að yfir 90% nýting sé á rúmum á sjúkrahúsum sem ekki eru í einkarekstri og hætta sé á að þau yfirfyllist innan tveggja vikna. 

Tæplega 3 þúsund eru látnir af völdum kórónuveirunnar í São Paulo og er borgin einn þeirra staða í Brasilíu sem hefur orðið einna verst úti í faraldrinum. Fleiri hafa smitast í Brasilíu en á Spáni og Ítalíu en síðasta sólarhringinn hafa verið skráð 7.938 ný staðfest smit í Brasilíu þannig að alls eru staðfest smit 241 þúsund talsins. Aðeins Bandaríkin, Rússland og Bretland eru með fleiri smit af ríkjum heims. 

Undanfarinn sólarhring hafa 485 látist af völdum COVID-19 í Brasilíu þannig að alls eru 16.118 látnir. Heilbrigðisyfirvöld í Brasilíu óttast að mun fleiri séu með smit en hafa verið staðfest vegna þess hversu fá sýni hafa verið tekin. 

Forseti Brasilíu, Jair Bolsonaro.
Forseti Brasilíu, Jair Bolsonaro. AFP

Forseti Brasilíu, Jair Bolsonaro, hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir hvernig hann hefur tekið á kórónuveirufaraldrinum bæði innanlands sem utan. Hann fer sjálfur ekki að leiðbeiningum heilbrigðisyfirvalda í landinu hvað varðar fjarlægð milli fólks því í gær birti hann myndir af sér með stuðningsmönnum og börnum í höfuðborginni Brasilíu á samfélagsmiðlum. 

Covas segir að hann eigi í viðræðum við ríkisstjórann í héraðinu um að setja á strangt útgöngubann í borginni í þeirri von að hægt verði að hægja á nýjum smitum áður en sjúkrahúsin verða yfirfull.

Alls eru íbúar São Paulo um 12 milljónir talsins og samkvæmt opinberum upplýsingum hafa flestir virt reglur um samkomubann að vettugi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka