Sjö Íslendingar eru í hópi nærri 6.000 manna sem boðað hafa hópmálsókn gegn stjórnvöldum í Tírol í Austurríki. Þetta staðfestir Peter Kolba, lögmaður og formaður austurrísku neytendaverndarsamtakanna, í samtali við mbl.is.
Hópurinn sakar yfirvöld um að hafa vísvitandi haft hljótt um útbreiðslu kórónuveirufaraldurs á skíðasvæðunum í sambandslandinu í febrúar og mars, og þar með sett efnahag svæðisins ofar heilsu gesta sinna.
Um fjórðungur allra starfa í þessum hluta Austurríkis byggist á ferðamennsku. 1.600 manna bærinn Ischgl, þaðan sem veirusmit virðast hafa borist vítt og breitt um álfuna, fær árlega til sín um hálfa milljón ferðamanna.
Ráðamenn í Tíról hafa verið gagnrýndir fyrir að bregðast of seint við og jafnvel hunsað viðvaranir, meðal annars þær sem íslensk heilbrigðisyfirvöld gáfu út. Þau skilgreindu Ischgl sem hááhættusvæði 5. mars vegna fjölda Íslendinga, og raunar fleiri Norðurlandabúa, sem greindust með kórónuveirusmit eftir að hafa verið þar á skíðum. Yfirvöld í Tíról hafa hins vegar vísað því á bug að þau hafi ekki hlustað á viðvaranirnar.