Bresk stjórnvöld hafa gert samninga við einkarekin fyrirtæki fyrir samtals einn milljarð punda, án þess að farið hafi verið í útboð á verkefnunum á Evrópska efnahagssvæðinu.
Í frétt Guardian kemur fram að stjórnvöld hafi samið beint við einkarekin fyrirtæki og að öðrum aðilum hafi ekki verið gefið færi á að koma fram með tilboð. Á meðal þeirra fyrirtækja sem gert hafa samning við stjórnvöld eru Deloitte, PricewaterhouseCoopers og Ernst & Young.
Alls voru 177 samningar gerðir við bresk fyrirtæki vegna kórónuveirufaraldursins án útboðs, flestir við bresk fyrirtæki.
Heimildir mbl.is herma að einhverjir umræddra samninga séu útboðsskyldir á grundvelli reglna um Evrópska efnahagssvæðið, en samkvæmt 126. grein útgöngusamnings Breta úr Evrópusambandinu bera Bretar og ríki Evrópu gagnkvæmar skyldur á grundvelli reglna Evrópusambandsins til 31. desember.
Samkvæmt heimildum mbl.is hafi Bretar með gerð umræddra samninga í raun tekið einhliða ákvörðun um sniðganga útboðskyldu á vissum verkefnum á grundvelli reglna Evrópusambandsins, en skylt er að auglýsa útboð á Evrópska efnahagssvæðinu ef fjárhæðir fara yfir ákveðin viðmiðunarmörk.
Bresk fyrirtæki hafa aftur á móti tekið þátt í útboðum annarra Evrópuríkja á grundvelli reglna Evrópusambandsins, meðal annars hér á landi, en breska auglýsingaskrifstofan M&C Saatchi hlaut hæstu einkunn valnefndar fyrir markaðsverkefnið „Ísland — saman í sókn.“