Yfir helmingur eldri borgara sem hafa látist af völdum kórónuveirunnar í Svíþjóð voru búsettir á dvalarheimilum. Einhverjir heilbrigðisstarfsmenn telja að tregða stofnana við að leggja fólk inn á sjúkrahús sé að kosta mannslíf. Þetta er meðal þess sem kemur fram í ítarlegri grein BBC um Svíþjóð og hvernig tekið er á kórónuveirufaraldrinum þar í landi.
Læknir skoðaði ekki föður Lili Sedghi, Reza, daginn sem hann lést af völdum veirunnar á dvalarheimili hans í norðurhluta Stokkhólms. Hjúkrunarfræðingur tjáði Lili Sedghi að faðir hennar hafi fengið morfín í æð nokkrum klukkustundum áður en hann lést. Hann hafi hins vegar ekki fengið súrefni né heldur hafi verið óskað eftir sjúkrabíl til að flytja hann á sjúkrahús. „Hann var einn þegar hann lést, það var enginn hjá honum,“ segir Sedghi. „Þetta er svo óréttlátt.“
Flestir þeirra 3.698 sem hafa látist úr COVID-19 í Svíþjóð hingað til eru yfir sjötugt. Stjórnvöld hafa gefið út að þeirra helsta forgangsmál sé að verja þá viðkvæmustu. Alls eru íbúar Svíþjóðar um 10 milljónir talsins og fá lönd í Evrópu hafa gripið til jafn takmarkaðra öryggisráðstafana, svo sem varðandi samkomubann o.fl. og Svíþjóð.
„Okkur tókst ekki að verja okkar berskjaldaðasta fólk, þá elstu, þrátt fyrir áform okkar þar um,“ sagði Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, í síðustu viku, samkvæmt frétt BBC.
Ekki var lagt bann við heimsóknum á dvalarheimili fyrr en 31. mars. Eins hafa ættingjar, starfsfólk og stéttarfélög lýst yfir áhyggjum vegna þess hversu seint hlífðarfatnaður barst á heimilin og eins að starfsfólk var látið mæta í vinnu í byrjun farsóttarinnar þrátt fyrir að vera með einkenni COVID-19.
Undanfarið hafa sífellt fleiri sænskir heilbrigðisstarfsmenn stigið fram og gagnrýnt heilbrigðisyfirvöld á sveitarstjórnarstigi vegna þess hvernig staðið var að málum á hjúkrunar/dvalarheimilum.
Til að mynda að dregið hafi verið úr starfsfólki að senda fólk af hjúkrunarheimilum á spítala, komið í veg fyrir að starfsfólk á hjúkrunarheimilum, svo sem hjúkrunarfræðingar, mætti gefa sjúklingum súrefni án samþykkis læknis, hvort sem það var hluti af bráða- eða lífslokameðferð.
„Þeir sögðu okkur að við ættum ekki að senda neinn á sjúkrahús þó svo að viðkomandi sé ekki nema 65 ára og eigi mörg ár ólifuð. Okkur var sagt að senda þá ekki,“ segir Latifa Löfvenberg, hjúkrunarfræðingur sem starfaði á nokkrum dvalarheimilum í kringum Gävle í byrjun faraldursins.
Hún segir að einhverjir þeirra hafi átt mörg ár ólifuð en ekki gefist möguleiki á því. Þau köfnuðu til bana. Það var erfitt að horfa á þetta gerast án þess að bregðast við segir hún í viðtali við BBC.
Löfvenberg starfar nú á COVID-19-deild á sjúkrahúsi í Stokkhólmi þar sem hún segir aldurssamsetningu sjúklinga sýna að eldra fólki er haldið frá sjúkrahúsunum. „Við erum ekki með marga eldri sjúklinga. Það er mikið af yngra fólki. Fólk fætt á tíunda, níunda og áttunda áratugnum.“
Bráðaliði sem starfar í Stokkhólmi segir í samtali við BBC að hann hafi aldrei fengið útkall á dvalarheimili vegna COVID-19 þrátt fyrir að hafa unnið langar vaktir á meðan farsóttin hefur geisað.
Mikael Fjällid, sem er ráðgjafi í svæfingar- og gjörgæslulækningum og starfar í einkageiranum, segist telja að hægt hefði verið að bjarga mörgum mannslífum ef fleiri sjúklingar hefðu fengið meðferð á sjúkrahúsi og eins ef starfsmenn hjúkrunarheimila fengju víðtækari heimild til að veita súrefnismeðferð í stað þess að þurfa að bíða eftir sérstöku COVID-19-viðbragðsteymi eða bráðaliðum.
„Ef þú þarft á gjörgæslu að halda og þú hefur hag af henni, til að mynda súrefni í stuttan tíma, þá áttu rétt á henni líkt og aðrir aldurshópar í þjóðfélaginu,“ segir hann í samtali við BBC.
Fjällid segir að ef yfir 20% komist yfir veikindin án utanaðkomandi aðstoðar megi gera ráð fyrir að svipað hlutfall hefði komist yfir veikindin með því að fá súrefnisgjöf.