Svíar takmörkuðu líf borgara minna en önnur ríki vegna kórónuveirufaraldursins. Aðgerðirnar voru umdeildar en áttu meðal annars að stuðla að skárra efnahagsástandi en ef öllu hefði verið lokað. Þrátt fyrir þá hugsjón stefnir sænska þjóðarskútan inn í dýpstu efnahagslægð frá síðari heimsstyrjöld, ef marka má fréttaveitu Bloomberg.
Sænska hagkerfið, sem er það stærsta á Norðurlöndum, mun samkvæmt fullyrðingum sænska fjármálaráðherrans skreppa saman um 7% á þessu ári. Á sama tíma og atvinnuleysistölur slá ný met er 30-föld aukning í lántökum hjá fólki sem er að reyna að ná endum saman tekjulaust. 40% fyrirtækja óttast gjaldþrot.
Sem segir hafa vægar takmarkanir sænskra stjórnvalda verið umdeildar en almennt verið litið svo á að þær muni milda efnahagslega áfallið, þó að stjórnvöld hafi vissulega sagt að það sé ekki það eina sem vaki fyrir þeim með þessu. Að sögn Bloomberg gefa afar slæmar efnahagshorfur nú tilefni til að endurskoða þá trú að efnahagslega hrunið verði einhverju minna vegna slakari aðgerða.
Magdalena Andersson fjármálaráðherra sagði þjóðina nú standa frammi fyrir „mjög djúpri efnahagskreppu“ og að hrunið væri að verða hraðar en búist hefði verið við. Talið er að Svíþjóð komi einhverju betur út úr kreppunni en aðrar þjóðir en að munurinn sé þó mjög lítill.
Búðir, veitingastaðir, líkamsræktarstöðvar og skólar voru opin í gegnum faraldurinn, þó að vitaskuld væri því beint til fólks að gæta að persónulegum sóttvörnum. Þrátt fyrir að samkvæmt þessu hafi allt getað gengið sinn vanagang reiðir hagkerfið sig mjög á erlend viðskipi. Þau hrundu sama hvað aðgerðum Svía sjálfra leið og höggið var þungt: Helmingur vergrar landsframleiðslu Svía er í útflutningi og stórfyrirtæki eins og Volvo og Electrolux hafa sagt upp þúsundum starfsmanna eftir því sem eftirspurnin hefur hrunið.
30.799 tilfelli COVID-19 hafa greinst í Svíþjóð. Flest þeirra eru virk: Aðeins 4.971 hafa náð sér. 3.743 hafa látist, sem er margfalt meira en í öðrum Norðurlandaríkjum.