Bandarískur þáttastjórnandi hefur gagnrýnt Donald Trump Bandaríkjaforseta harðlega fyrir að ýja að því að eiginmaður hennar og samstarfsmaður hafi hugsanlega komist upp með morð.
Trump virðist í tístum sínum á Twitter bendla Joe Scarborough, þáttastjórnanda á MSNBC, við dauða aðstoðarmanns fyrir tveimur áratugum. Lögreglan hefur vísað þessari samsæriskenningu á bug, að því er BBC greinir frá.
„Donald, þú ert veikur maður,“ sagði þáttastjórnandinn Mika Brzezinski, í beinni útsendingu er hún varði eiginmann sinn. Hún krafðist þess einnig að tíst forsetans yrðu fjarlægð.
.@jack At what point is @Twitter a part of this? TAKE DOWN TRUMP’s ACCOUNT— the world world be safer. Retweet if you agree
— Mika Brzezinski (@morningmika) May 20, 2020
„Enn og aftur er hann að tísta samsæriskenningum um Joe, þar sem hann ranglega sakaður um morð,“ bætti Brzezinski við í þættinum Morning Joe áður en hún ávarpaði forsetann beint.
Hún undraðist hvernig forsetinn gæti látið fjölskyldu aðstoðarmanns á Bandaríkjaþingi ganga í gegnum slíkt „kjaftæði“ eftir að yfirvöld sögðu að hann hefði látist af náttúrulegum orsökum á skrifstofu Scarborough árið 2001.
„Donald, þú ert veikur maður,“ sagði hún. „Þú ert virkilega grimm, veik og andstyggileg manneskja.“
Hún sagði að með tístum sínum væri forsetinn að reyna að beina athyglinni frá kórónuveirufaraldrinum vegna þess að eiginmaður hennar hafi „sagt sannleikann“ um „vanhæfni Trump til að takast á við gríðarlegar hörmungar“.