Þriðji maðurinn handtekinn

Ráðhúsið í Brunswick í Georgíu.
Ráðhúsið í Brunswick í Georgíu. AFP

Ökumaður sem tók upp skotárás á óvopnaðan svartan mann í Georgíu fyrr á árinu hefur verið handtekinn grunaður um aðild að morði. Feðgar höfðu áður verið ákærðir fyrir að hafa skotið Ahmaud Arbery, sem var 25 ára, til bana þegar hann var úti að skokka 23. febrúar.

William Bryan Jr er einnig sakaður um tilraun til ólöglegrar frelsissviptingar að því er segir í tilkynningu frá alríkislögreglunni í Georgíu-ríki. 

Feðgarnir Gregory McMichael og Travis sonur hans voru ákærðir fyrir morð 7. maí. Stuttu áður en Arbery var skotinn til bana höfðu feðgarnir, sem voru hvítir og vopnaðir, mætt Arbery þar sem hann var á hlaupum í Satilla Shores-hverfinu en þeir voru á pallbíl. 

Gregory McMichael sagði lögreglu að hann hafi talið að Arbery bæri ábyrgð á nokkrum innbrotum á svæðinu.

36 sekúndna löngu myndskeiði Bryans var lekið á netið 5. maí og voru feðgarnir fljótlega handteknir og ákærðir í kjölfarið fyrir morð. Bryan tók myndskeiðið upp úr bíl sínum er hann ók á eftir Arbery. Á upptökunni sést Arbery hlaupa niður götu í átt að McMichaels-feðgunum sem biðu hans í pallbílnum. Til átaka kom á milli þeirra og Travis McMichael sést skjóta úr byssu á Arbery sem fellur í götuna.

Fjölskylda Arbery fagnaði handtökunni í gær og lögfræðingur þeirra, Lee Merritt, segir að þáttur Bryans í morðinu sé augljós og nú að lokinni rannsókn hafi lögreglan komist að sömu niðurstöðu. 

Í frétt BBC kemur fram að Bryan verði væntanlega gert að sæta gæsluvarðhaldi í Glynn-sýslufangelsinu þar sem McMichaels eru einnig í haldi fram að réttarhöldunum.

Samkvæmt upplýsingum BBC hefur Bryan legið undir grun um aðild að morðinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert