Fyrsti dagur réttarhalda yfir Netanyahu í dag

Réttarhöld yfir Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, hefjast í dag. ER …
Réttarhöld yfir Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, hefjast í dag. ER hann ákærður fyrir spillingu, mútur og umboðssvik. AFP

Réttarhöld yfir Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, hefjast í dag, en hann er fyrsti sitjandi forsætisráðherra landsins sem hefur verið ákærður. Netanyahu er sakaður um spillingu, mútur og umboðssvik, en hann neitar sök og hefur sagt að um „nornaveiðar“ pólitískra andstæðinga sinna sé að ræða.

Ráðherr­ann er sakaður um að hafa beðið út­gef­anda ísra­elsks dag­blaðs, Yediot Aharonot, um já­kvæða um­fjöll­un gegn því að hann myndi hjálpa til við að hindra út­gáfu keppi­naut­ar­dagblaðs. 

Auk þess er for­sæt­is­ráðherr­ann sakaður um að hafa þegið gjaf­ir sem nema rúm­um 10 millj­ón­um ís­lenskra króna frá Hollywood-auðjöfr­in­um Arnon Milch­an og öðrum stuðnings­mönnum. 

Þetta er þó ekki í fyrsta skiptið sem farið er á eftir leiðtogum ríkisins, en árið 2009 steig Ehud Olmert, þáverandi forsætisráðherra, til hliðar eftir að lögreglan hafði farið fram á að hann yrði ákærður fyrir að þiggja mútur. Hann var að lokum fundinn sekur og dæmdur í 27 mánaða fangelsi. Báðir voru þeir flokksmenn Likud-flokksins.

Upphaflega átti að þingfesta mál Netanyahus í mars, en vegna kórónuveirufaraldursins var þingfestingunni frestað til dagsins í dag.

Fyrir ákæruvaldinu fer ríkissaksóknarinn Avichai Mandelblit, sem er strangtrúaður, en hann er fyrrverandi ráðherra og var skipaður í stöðuna af Netanyahu sjálfum árið 2016. Eftir að hann hafði gegnt embættinu í stuttan tíma kom ísraelska lögreglan til hans með grunsemdir um þau atriði sem nú er ákært fyrir í máli Netanyahus. Hefur Mandelblit sagt að ákvörðunin um að gefa út ákæruna hafi verið erfið, en nauðsynleg. Sagði hann jafnframt að framfylgd laga væri ekki valkvæð og ekki spurning um hægri eða vinstri stjórnmál.

Verjendur Netanyahus óskuðu eftir því að hann þyrfti ekki að mæta við þingfestinguna, en þeirri beiðni var hafnað. Netanyahu þarf þó ekki að mæta aðra daga réttarhaldanna. Búast má við að mál hans muni dragast yfir nokkra mánuði, jafnvel ár, ef málsaðilar áfrýja dómnum.

Þrátt fyrir að Netanyahu hafi verið ákærður getur hann áfram setið sem forsætisráðherra. Hafa gagnrýnisraddir bent á að óeðlilegt sé að yfirmaður ríkisins geti gegnt því embætti meðan hann sé sóttur til saka og á sama tíma mögulega veikt ákæruvaldið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert