Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, kom fyrir dómara við þingfestingu spillingarmáls sem nú er rekið gegn honum.
Netanyahu staðfesti aðeins hver hann væri við þingfestinguna, en dómþingi var frestað eftir um klukkustund, en þá hafði verjendateymi Netanyahu óskað eftir löngum fresti til að fara yfir sönnunargögn.
Engin dagsetning var sett fyrir næsta þinghald.
Umtalsverðar ráðstafanir voru gerðar vegna kórónufaraldursins við réttarhöldin, en þingfestingunni hafði áður verið frestað vegna ástandsins. Voru Netanyahu og aðrir í dómsalnum meðal annars með andlitsgrímur á sér.
Um 800 manns komu saman fyrir utan heimili ráðherrans í dag þar sem þau mótmæltu meintum brotum hans, meðan um 200 manns komu saman á öðrum stað til að lýsa stuðningi við ráðherrann.
Áður en Netanyahu fór fyrir dómstólinn hélt hann ræðu fyrir blaðamenn við dómshúsið. Þar ítrekaði hann fyrri orð sín um sakleysi sitt og sagði ákæruna vera „nornaveiðar“.
Ráðherrann er sakaður um að hafa beðið útgefanda ísraelsks dagblaðs, Yediot Aharonot, um jákvæða umfjöllun gegn því að hann myndi hjálpa til við að hindra útgáfu keppinautardagblaðs.
Auk þess er forsætisráðherrann sakaður um að hafa þegið gjafir sem nema rúmum 10 milljónum íslenskra króna frá Hollywood-auðjöfrinum Arnon Milchan og öðrum stuðningsmönnum.
Þrátt fyrir að Netanyahu hafi verið ákærður getur hann áfram setið sem forsætisráðherra. Hafa gagnrýnisraddir bent á að óeðlilegt sé að yfirmaður ríkisins geti gegnt því embætti meðan hann sé sóttur til saka og á sama tíma mögulega veikt ákæruvaldið.