Hlutabréf í þýska efna- og lyfjafyrirtækinu Bayer hækkuðu mikið í verði í morgun eftir að fréttir bárust af samkomulagi við bandarískan hóp sem stefndi fyrirtækinu vegna krabbameins af völdum illgresiseyðisins Roundup sem framleiddur var af dótturfélagi Bayer, Monsanto.
Hlutabréf í Bayer hækkuðu um 5,3% fljótlega eftir að viðskipti hófust í kauphöllinni í Frankfurt í morgun. Talsmaður Bayer, Christian Hartel, segir að ákveðnum áfanga hafi verið náð í viðræðunum en ekki sé tímabært að greina nánar frá því fyrr en búið er að ganga frá samkomulaginu.
Bloomberg News hafði áður greint frá því að búið væri að ná munnlegu samkomulagi við á milli 50-80 þúsund þeirra 125 þúsund Bandaríkjamanna sem taka þátt í hópmálsókninni.
Árið 2018 var Monsanto dæmt til að greiða manni rúma 30 milljarða króna í skaðabætur vegna Roundup sem innihélt glýfosat.