Lufthansa fær ríkisaðstoð

Þýska ríkið verður hluthafi í Lufthansa til 2023 og fær …
Þýska ríkið verður hluthafi í Lufthansa til 2023 og fær flugfélagið níu milljarða í ríkisaðstoð. AFP

Þýska flugfélagið Lufthansa fær níu millj­arða evra í ríkisaðstoð sem styðja á við rekst­ur fé­lags­ins gegn­um af­leiðing­ar heims­far­ald­urs kór­ónu­veirunn­ar. Upp­hæðin nem­ur um 1.395 millj­örðum króna. 

„Fyrir faraldurinn var rekstur flugfélagsins heilbrigður og arðbær og framtíðin var björt,“ sagði fjármálaráðherra Þýskalands þegar ríkisaðstoðin var kynnt fyrr í dag. Þýska ríkið verður hluthafi í flugfélaginu til 2023. 

Í lok apríl gaf Lufthansa út viðvörun þess efn­is að lausa­fé þess muni klár­ast inn­an fá­einna vikna, fái það ekki rík­isaðstoð og óskaði það í kjölfarið eftir aðstoð frá rík­is­stjórn­um Þýska­lands, Aust­ur­rík­is, Belg­íu og Sviss. Fram­kvæmda­stjór­inn Car­sten Spohr tjáði starfs­fólki sínu jafnframt að fé­lagið væri að tapa einni millj­ón evra á hverri klukku­stund sem liði.

Luft­hansa, sem hef­ur höfuðstöðvar í þýsku fjár­mála­höfuðborg­inni Frankfurt, hef­ur kyrr­sett nærri all­ar flug­vél­ar sín­ar og lagt fleiri en 40 þotum. Áætlað er að áætlunarferðir hefjist að nýju í júní frá Frankfurt til tuttugu mismunandi áfangastaða. Í lok júní er stefnan tekin á flug til 106 áfangastaða í Evrópu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert