Þýska flugfélagið Lufthansa fær níu milljarða evra í ríkisaðstoð sem styðja á við rekstur félagsins gegnum afleiðingar heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Upphæðin nemur um 1.395 milljörðum króna.
„Fyrir faraldurinn var rekstur flugfélagsins heilbrigður og arðbær og framtíðin var björt,“ sagði fjármálaráðherra Þýskalands þegar ríkisaðstoðin var kynnt fyrr í dag. Þýska ríkið verður hluthafi í flugfélaginu til 2023.
Í lok apríl gaf Lufthansa út viðvörun þess efnis að lausafé þess muni klárast innan fáeinna vikna, fái það ekki ríkisaðstoð og óskaði það í kjölfarið eftir aðstoð frá ríkisstjórnum Þýskalands, Austurríkis, Belgíu og Sviss. Framkvæmdastjórinn Carsten Spohr tjáði starfsfólki sínu jafnframt að félagið væri að tapa einni milljón evra á hverri klukkustund sem liði.
Lufthansa, sem hefur höfuðstöðvar í þýsku fjármálahöfuðborginni Frankfurt, hefur kyrrsett nærri allar flugvélar sínar og lagt fleiri en 40 þotum. Áætlað er að áætlunarferðir hefjist að nýju í júní frá Frankfurt til tuttugu mismunandi áfangastaða. Í lok júní er stefnan tekin á flug til 106 áfangastaða í Evrópu.