Tölur yfir látna í Bretlandi þar sem kórónuveiran á hlut að máli var í dag hækkuð umtalsvert. Breskur ráðherra sagði af sér í morgun vegna ferðalags Dominic Cummings, eins helsta ráðgjafa forsætisráðherra, þrátt fyrir að reglur sem gilda vegna COVID-19 hafi mælt gegn slíkum ferðalögum.
Hagstofa Bretlands birti í dag tölur um að 46 þúsund væru látnir í Bretlandi þar sem kórónuveiran ætti hlut að máli. Samkvæmt tölum frá heilbrigðisyfirvöldum eru 36.914 látnir af völdum COVID-19 í landinu. Í þeim tölum eru aðeins þeir taldir sem voru með staðfest smit þegar þeir létust.
Í tölum Hagstofu Bretlands er miðað við alla þá sem voru með COVID-19 eða þar sem grunur leikur á að um COVID-19 hafi verið að ræða samkvæmt því sem kemur fram á dánarvottorði.
Mörg ríki hafa átt erfitt með að gefa upp nákvæmar tölur um fjölda látinna en Spánverjar lækkuðu dánartöluna um tvö þúsund í gær. Eru þeir nú 26.834. Þetta er niðurstaðan eftir að farið var að nota nýja aðferð við upplýsingaöflun. Kom í ljós að einhver andlát voru tvítalin.
Ítölsk yfirvöld komust að raun um það í byrjun maí að þar höfðu 11.700 dauðsföll verið vantalin á sjúkrahúsum, hjúkrunarheimilum og vistheimilum frá 20. febrúar til 31. mars.
Bretland er eitt síðasta ríkið í Evrópu til að aflétta hömlum vegna kórónuveirunnar. Flestar verslanir eru enn lokaðar og fáir veitingastaðir og kaffihús eru með starfsemi og þá aðeins til að taka með sér eða heimsendingar.
Forsætisráðherra Bretlands, Boris Johnson, segir stefnt að því að hefja skólastarf yngstu barnanna 1. júní. Verslanir með annað en nauðsynjavöru geta opnað að nýju 15. júní ef staðan versnar ekki. Útimarkaðir verða opnaðir 1. júní.
Douglas Ross, ráðherra Skotlandsmála, sagði af sér í dag vegna brota Cummings á reglum ríkisstjórnarinnar vegna kórónuveirunnar.
Boris Johnson sagði aftur á móti um helgina að Cummings hefði hagað sér „skynsamlega, löglega og af heilindum“ þegar hann ákvað að ferðast til Norðaustur-Englands til að koma börnum sínum í pössun þegar hann og konan hans voru við það að verða óvinnufær vegna veirunnar.
Áður hafði Cummings ferðast til Norðaustur-Englands með eiginkonu sinni sem sýndi einkenni COVID-19.
Ross segir að hann hafi hitt kjósendur sem gátu ekki kvatt ástvini sína, fjölskyldur sem gátu ekki syrgt saman, fólk sem gat ekki heimsótt veika ættingja vegna þess að þeir fylgdu leiðbeiningum ríkisstjórnarinnar. „Ég get ekki með góðri samvisku sagt þeim að þetta hafi ekki verið rétt hjá þeim og að einn háttsettur ráðgjafi ríkisstjórnarinnar hafi haft rétt fyrir sér,“ skrifar Ross á Twitter.
Ross bætir við að fæstir íbúar landsins hafi gert það sama og Cummings — að brjóta reglur ríkisstjórnarinnar.
Stuttu eftir að Ross hætti bættist Harriet Baldwin í stækkandi hóp þingmanna Íhaldsflokksins sem krefjast afsagnar Cummings. Aftur á móti eru ekki allir þar á sama máli og telja eðlilegt að umræðan snúist um eitthvað annað en ferðalag Cummings.