Ísland, auk 30 annarra Evrópuríkja, verður meðal þeirra áfangastaða sem þýska ríkisstjórnin er tilbúin að létta ferðahömlum af frá 15. júní ef staðan í kórónuveirufaraldrinum leyfir.
Greint er frá þessu á vef þýsku fréttaveitunnar DPA.
Þar segir að samkvæmt frumvarpi sem lagt verði fyrir þýsku stjórnina á morgun vilji stjórnvöld að ferðalög til og frá ríkjum Evrópusambandsins, auk Bretlands, verði leyfð.
Einnig kemur þar fram að ferðalögin eigi líka við um ríki í Schengen-samstarfinu en það eru Liechtenstein, Noregur, Sviss og Ísland.
Greint var frá því í gær að áhugi væri hjá Icelandair að hefja daglegt flug til lykilstaða sem fyrst eftir að landamæri Íslands verða opnuð 15. júní. Þar eru meðal annars nefndir áfangastaðirnir Kaupmannahöfn, Ósló, Frankfurt og Berlín.