Átök hafa átt sér stað á milli lögreglu og mótmælenda í bandarísku borginni Minneapolis eftir dauða óvopnaðs svarts manns sem var í haldi lögreglunnar.
Lögreglan beitti táragasi og mótmælendur köstuðu steinum og sprautuðu málningu á lögreglubíla.
Í myndbandi sem náðist af dauða George Floyd, sem var 46 ára, sagðist hann ekki getað andað þegar hvítur lögreglumaður kraup á hálsi hans. Fjórir lögreglumenn voru reknir í gær vegna málsins. Borgarstjóri Minnesota greindi frá því að það að vera svartur „ætti ekki að fela í sér dauðadóm“, að sögn BBC.
Mótmælin hófust síðdegis á mánudag þegar hundruð manna söfnuðust saman við gatnamótin þar sem atvikið átti sér stað.
Skipuleggjendur reyndu að hafa mótmælin friðsamleg og halda fjarlægðarmörkum vegna kórónuveirunnar. Mótmælendurnir kölluðu „Ég get ekki andað“ og „Þetta hefði getað verið ég“.
Anita Murray sagði við Washington Post: „Það er ógnvekjandi að koma hingað í miðjum faraldri en ég gat ekki haldið mig í burtu.“
Hópur mótmælenda gekk í átt að lögreglustöðinni þar sem talið er að lögreglumennirnir sem áttu aðild að dauða Floyd störfuðu. Málningu var sprautað á lögreglubíla og steinum var kastað að lögreglustöðinni. Lögreglan beitti m.a. táragasi gegn mótmælendunum.