Myrti dóttur sína heiðursmorði

AFP

Lögregla í Norður-Íran hefur handtekið karlmann sem er sakaður um að hafa myrt 14 ára dóttur sína heiðursmorði. Málið hefur valdið gríðarlegri reiði í Íran. 

Romina Ashrafi flúði heimili sitt í Gilan-héraði með 35 ára gömlum kærasta sínum eftir að faðir hennar mótmælti fyrirhuguðu hjónabandi þeirra. 

Fram kemur á vef BBC að lögregla hafði upp á parinu og sendi Rominu aftur heim til fjölskyldu sinnar, þrátt fyrir ítrekaðar yfirlýsingar Rominu um að líf hennar væri í hættu. 

Faðir Rominu réðst á hana í svefnherbergi hennar á fimmtudagskvöld. Íranskir fjölmiðlar hafa greint frá því að faðirinn afhöfðaði hana með kornljá og gekk síðan út af heimilinu með ljáinn í hendi og játaði morðið. 

Dauði Rominu hefur valdið gríðarlegri reiði í írönsku samfélagi. Margir hafa kallað eftir laga- og viðhorfsbreytingum í tengslum við heiðursmorð.

Írönsk hegningarlöggjöf kveður á um lægri refsingu fyrir feður og aðra í fjölskyldunni sem eru sakfelldir fyrir morð eða ofbeldi gegn börnum ef heiður býr að baki gjörðum þeirra. 

Ef faðir er sakfelldur fyrir að myrða dóttur sína er refsing samkvæmt írönskum hegningarlögum 3 til 10 ár í fangelsi, í stað hins almenna dauðadóms eða greiðslu blóðpeninga þegar um venjulegt morð er að ræða. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert