Bandaríkin slíta öll tengsl við WHO

Donald Trump Bandaríkjaforseti fór hörðum orðum um WHO og kínversk …
Donald Trump Bandaríkjaforseti fór hörðum orðum um WHO og kínversk stjórnvöld á blaðamannafundi dagsins. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði í kvöld að Bandríkin myndu slíta öll tengsl við Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina (WHO) því henni hafi mistekist að koma í veg fyrir útbreiðslu kórónuveirunnar þegar hún kom fyrst upp.

Þá ætlar hann að banna kínverskum háskólanemum sem teljast ógn við þjóðaröryggi að koma til Bandaríkjanna.

Trump hefur farið mikinn í gagnrýni sinni á Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina síðan í apríl og meðal annars sakað hana um að vera „strengjabrúðu Kínverja“ og að hafa reynt að hylma yfir útbreiðslu heimsfaraldurs kórónuveiru.

WHO fór ekki eftir fyrirmælum um breytingar

Hann hefur ítrekað hótað því að stöðva fjárframlög til stofnunarinnar en fjárframlög Bandaríkjanna til WHO námu 15% af öllum framlögum sem stofnunin fékk árið 2019. Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur tekur undir gagnrýni forseta síns og sagði fyrir rúmum mánuði síðan að Bandaríkin þyrftu að sjá breytingar á starfsemi stofnunarinnar, annars myndu Bandaríkin hætta að veita henni fjármagn. Nú virðist þolinmæðin vera á þrotum.

„Af því að stofnunin hefur látið hjá líða að gera nauðsynlegar umbætur á starfi sínu. Við munum í dag slíta öll tengsl við WHO,“ sagði Trump við fjölmiðla á blaðamannafundi spurður af hverju hann hefði tekið ákvörðunina.

Kínverskir háskólanemar komi ekki til Bandaríkjanna

Hann fór einnig mjög hörðum orðum um kínversk stjórnvöld og sagðist ætla meina kínverskum háskólanemum sem teljast ógn við þjóðaröryggi Bandaríkjanna að koma til landsins. Auk þess ætlar hann að slíta sérstökum viðskiptasamningi við Hong Kong en Bandaríkin líta ekki lengur á borgina sem sjálfstjórnarhérað.

Trump sakaði Kínverja enn og aftur um að bera ábyrgð á kórónuveirufaraldrinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert