Fannst látinn við brennandi bifreið

Eldar hafa logað víða í Bandaríkjunum eftir að til átaka …
Eldar hafa logað víða í Bandaríkjunum eftir að til átaka hefur komið á milli mótmælenda og lögreglu í fjölmörgum borgum. AFP

Maður fannst látinn skammt frá brennandi bifreið í Minneapolis í Bandaríkjunum í dag að sögn lögreglunnar í borginni. Ekki er búið að bera kennsl á manninn, en afar róstusamt hefur verið í borginni eftir að lögreglumaður varð svörtum manni að bana í síðustu viku. 

John Elder, talsmaður lögreglunnar segir að áverkar hafi verið á líkinu og rannsóknarlögreglumenn rannsaki málið sem manndráp. 

Ekki liggur fyrir á þessari stundu hvort þetta tengist þeim mótmælum sem hafa skekið Bandaríkin að undanförnu í kjölfar andláts George Floyd sl. mánudag. 

Útgöngubann var lagt á í borginni í gær og mörg þúsund þjóðvarðliðar kallaðir á vettvang til að stöðva frekari ofbeldis- og skemmdarverk. Kveikt hefur verið í bílum og byggingu og brotist hefur verið inn í verslanir í borginni, sem er í Minnesota-ríki. 

Elder segir að slökkviliðsmenn hafi verið kallaðir á vettvang um kl. 4 að staðartíma í nótt. Lögreglumenn, sem fóru einnig á staðinn, komu svo að líki mannsins skammt frá bílnum. 

Dánarorsök liggja ekki fyrir að svo stöddu en beðið er niðurstöðu krufningar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert