Sagði veiruna hafa yfirgefið Ítalíu

Zangrillo, sem er einkalæknir Silvio Berlusconi fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu, ræddi …
Zangrillo, sem er einkalæknir Silvio Berlusconi fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu, ræddi kórónuveirufaraldurinn í sjónvarpsviðtali í gær þar sem hann sagði veiruna ekki vera lengur til staðar í landinu. AFP

„Í raun og veru er veiran, vísindalega séð, ekki lengur til staðar á Ítalíu.“ Þetta fullyrðir Alberto Zangrillo, yfirlæknir á San Raffaele-spítalanum í Mílanó. 

Vísindamenn, heilbrigðisyfirvöld og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) keppast nú við að koma í veg fyrir að fullyrðing læknisins nái útbreiðslu. 

Zangrillo, sem er einkalæknir Silvio Berlusconi fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu, ræddi kórónuveirufaraldurinn í sjónvarpsviðtali í gær þar sem sagði meðal annars að sýnin sem tekin hafa verið síðustu tíu daga sýna fram á agnarsmáan styrk kórónuveirunnar, samanborið við sýni sem tekin voru fyrir einum eða tveimur mánuðum. „Einhver þarf að axla ábyrgð á að hafa skelft þjóðina,“ sagði hann jafnframt. 

Zangrillo býr og starfar í Mílanó, höfuðborg Langbarðalands, þar sem kórónuveirufaraldurinn hefur verið hvað skæðastur. Rúmlega 33 þúsund hafa látið lífið á Ítalíu sökum veirunnar, þar af rúmlega helmingur í Langbarðalandi. 

Rúmlega 33 þúsund hafa látið lífið á Ítalíu sökum veirunnar, …
Rúmlega 33 þúsund hafa látið lífið á Ítalíu sökum veirunnar, þar af rúmlega helmingur í Langbarðalandi. AFP

„Þetta er enn banvæn veira“

Sérfræðingar úr ýmsum áttum voru fljótir að bregðast við ummælum Zangrillo. Dr. Oscar MacLean, prófessor í faraldsfræði við Háskólann í Glasgow, segir fullyrðingu Zangrillo ekki byggða á vísindalegum gögnum. Martin Hibber, breskur prófessor, bendir á að nú sé einmitt tíminn til að fylgjast með þeim sem sýna vægari einkenni þar sem veiran gæti verið að breytast. 

WHO brást við með yfirlýsingu þess efnis að kórónuveiran og COVID-19, sjúkdómurinn sem veiran veldur, sé ekki orðin vægari. „Við þurfum að fara varlega, þetta er enn banvæn veira,“ segir Michael Ryan, yf­ir­maður bráðadeild­ar WHO. 

Hann segir það mikilvægt að fólk þrói ekki með sér það viðhorf, nú þegar faraldurinn er víða í rénun, að veiran sé minna smitandi og að hún sé orðin vægari á einhvern hátt. „Sú er alls ekki raunin.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert